Sigurmark á síðustu sekúndu og Ísland til Berlínar

Lið Íslands sem leikur á HM 21 árs liða.
Lið Íslands sem leikur á HM 21 árs liða. Ljósmynd/EHF

Íslenska piltalandsliðið í handknattleik tryggði sér sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts 21-árs landsliða í dag þegar það sigraði Egyptaland, 29:28, í lokaumferð riðlakeppninnar í Aþenu í Grikklandi.

Þar með er ljóst að Ísland mætir Portúgal í átta liða úrslitunum í Berlín í Þýskalandi á fimmtudaginn. Serbía endar í öðru sæti riðilsins og mætir Færeyjum.

Egyptar þurftu stig til að eiga einhverja möguleika á að komast áfram en íslenska liðið mátti tapa leiknum með fjögurra marka mun og fara samt í átta liða úrslit.

Eftir jafnar upphafsmínútur náði Ísland undirtökunum með frábærum kafla þar sem liðið breytti stöðunni úr 6:7 í 15:8. Staðan var síðan 19:13 í hálfleik.

Íslensku strákarnir héldu uppteknum hætti framan af síðari hálfleik og fyrir hann miðjan voru þeir komnir með tíu marka forystu, 25:15.

Sigurinn virtist blasa við en þá hrundi leikur liðsins gjörsamlega. Egyptar skoruðu ellefu mörk gegn einu á tólf mínútum og jöfnuðu metin í 26:26.

Benedikt Gunnar Óskarsson kom þá Íslandi yfir á ný, 27:26, og bæði lið klúðruðu tveimur sóknum í röð en Egyptar jöfnuðu síðan metin í 27:27 þegar um 80 sekúndur voru eftir. 

Jóhannes Berg Andrason skoraði, 28:27, þegar hálf mínúta var eftir en sextán sekúndum fyrir leikslok fengu Egyptar vítakast og jöfnuðu metin í 28:28.

Egyptarnir brutu gróflega af sér og fengu á sig vítakast fyrir vikið þegar tvær sekúndur voru eftir. Benedikt Gunnar Óskarsson fór á vítalínuna þar sem hann skoraði af öryggi og tryggði íslenskan sigur, 29:28.

Mörk Íslands: Andri Már Rúnarsson 6, Arnór Viðarsson 4, Benedikt Gunnar Óskarsson 4, Þorsteinn Leó Gunnarsson 3, Tryggvi Þórisson 3, Jóhannes Berg Andrason 3, Einar Bragi Aðalsteinsson 2, Símon Michael Guðjónsson 1, Kristófer Máni Jónasson 1, Stefán Orri Arnalds 1, Andri Finnsson 1.

Adam Thorstensen varði fimm mörk í íslenska markinu, þar af eitt vítakast, og Brynjar Vignir Sigurjónsson varði fjögur  skot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka