Ólafur og Guðjón Valur í heiðurshöll EHF

Ólafur Stefánsson, annar frá vinstri, var viðstaddur athöfnina í gær.
Ólafur Stefánsson, annar frá vinstri, var viðstaddur athöfnina í gær. Ljósmynd/EHF

Ólafur Stefánsson og Guðjón Valur Sigurðsson voru teknir inn í heiðurshöll handknattleikssambands Evrópu, EHF, á fögnuði sambandsins í Vín í Austurríki í gær.

Heiðurshöll EHF er ný af nálinni og er sett á laggirnar í tilefni 30 ára afmælis sambandsins í ár. Þeir leikmenn sem eru gjaldgengir fyrir inntöku í höllina eru þeir sem hafa skarað fram úr í keppnum á vegum sambandsins undanfarna þrjá áratugi.

Ólafur og Guðjón Valur eru á meðal 30 fyrstu karlanna sem eru þess heiðurs aðnjótandi að vera teknir inn í heiðurshöllina og er óhætt að segja að þeir séu vel að heiðrinum komnir enda tveir af bestu handknattleiksmönnum sögunnar.

Hægri skyttan Ólafur sankaði að sér titlum og verðlaunum hvert sem hann fór og var hluti af íslenska landsliðinu sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking í Kína árið 2008 og til bronsverðlauna EM 2010 í Austurríki.

Vinstri hornamaðurinn Guðjón Valur átti sömuleiðis magnaðan feril, vann til fjölda titla og var hluti af íslenska landsliðinu sem vann til framangreindra verðlauna.

Hann skoraði ógrynni af mörkum og er markahæsti landsliðskarl í sögu handboltans með 1.879 mörk í 365 A-landsleikjum.

Þess má einnig geta að Ólafur er fjórði markahæsti leikmaður sögunnar með 1.570 mörk í 330 A-landsleikjum.

Guðjón Valur er nú þjálfari Gummersbach í þýsku 1. deildinni og Ólafur er aðstoðarþjálfari Erlangen í sömu deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka