Þátttakan kostar hvern landsliðsmann 300.000 krónur

Allir leikmenn íslenska liðsins þurfa að greiða 300.000 krónur úr …
Allir leikmenn íslenska liðsins þurfa að greiða 300.000 krónur úr eigin vasa til þess að taka þátt í lokakeppninni. Ljósmynd/Jozo Cabraja

Leikmenn íslenska U21-árs karlalandsliðsins í handknattleik þurftu að greiða 300.000 krónur úr eigin vasa til þess að taka þátt í lokakeppni heimsmeistaramótsins sem nú fer fram í Grikklandi og Þýskalandi.

Elísabet Sveinsdóttir, móðir Einars Braga Aðalsteinsson, leikmanns íslenska liðsins og FH, greindi frá þessu í færslu sem hún birti á samfélagsmiðlinum Facebook í vikunni.

Þessa dagana er Einar Bragi ásamt flottum hópi stráka í U-21 að keppa á heimsmeistraramótinu sem fram fer í Aþenu og Þýskalandi,“ skrifaði Elísabet í færslunni en hún gaf mbl.is leyfi til þess að birta hana í heild sinni hér fyrir neðan.

Söfnunin bíður betri tíma

„Hann þarf að greiða 300.000 kr. úr eigin vasa til að taka þátt - og þeir allir. Þeim hefur gengið vel, unnu riðilinn sinn og lögðu svo sterkt lið Grikkja í dag.

Það er frábært að fylgjast með þessum mögnuðu strákum sem leggja ómælda vinnu, metnað, hjarta og sál í hvern leik. Söfnunin bíður eftir að heim er komið því þá þarf að borga skuldina fyrir að hafa keppt fyrir Ísland,“ segir ennfremur í færslu Elísabetar.

Íslenska liðið vann alla leikina sína í bæði riðla- og milliriðlakeppninni og er komið áfram í 8-liða úrslitin þar sem liðið mætir Portúgal í Berlín á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka