Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon, leikmenn Evrópumeistara Magdeburgar, munu mæta Bjarka Má Elíssyni og félögum í Veszprém í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla á næsta tímabili.
Dregið var í riðla Meistaradeildarinnar í Vín í Austurríki í morgun.
Þýska liðið Magdeburg, sem vann keppnina á dögunum eftir ótrúlega framgöngu Gísla Þorgeirs Kristjánssonar í úrslitaleiknum gegn Kielce, dróst í B-riðil ásamt ungversku meisturunum í Veszprém.
Í riðlinum eru einnig dönsku meistarararnir í GOG, Spánarmeistarar Barcelona, pólska liðið Wisla Plock, franska liðið Montpellier, portúgölsku meistararnir í Porto og slóvensku meistararnir í Celje.
Í A-riðlinum koma þrír Íslendingar til viðbótar til með að etja kappi.
Janus Daði Smárason, Sigvaldi Björn Guðjónsson og liðsfélagar þeirra hjá Noregsmeisturum Kolstad drógust í A-riðil ásamt pólsku meisturunum í Kielce, þar sem Haukur Þrastarson er á mála.
Frakklandsmeistarar Parísar Saint-Germain og Þýskalandsmeistarar Kiel eru einnig í riðlinum ásamt króatísku meisturunum í Zagreb, norður-makedónsku meisturunum í Eurofarm Pelister, danska liðinu Aalborg og ungverska liðinu Pick Szeged.
Morgunljóst er því að báðir riðlar eru ógnarsterkir.
A-riðill:
Kielce
PSG
Kiel
Zagreb
Aalborg
Pick Szeged
Eurofarm Pelister
Kolstad
B-riðill:
GOG
Veszprém
Barcelona
Magdeburg
Wisla Plock
Montpellier
Porto
Celje