Handboltamaðurinn Alexander Petersson hefur skrifað undir eins árs samning við Val og mun leika á Hlíðarenda á næsta tímabili.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Valsmönnum.
Alexander, sem er 43 ára gamall, lék síðast með Melsungen í Þýskalandi áður en hann ákvað að leggja handboltaskóna á hilluna vorið 2022.
Samkvæmt tilkynningunni langar Alexander að ljúka ferlinum hér á Íslandi og hefur valið sér félag til þess að ljúka glæstum ferli sínum. Hann lék síðast hérlendis árið 2003 þegar hann lék með Gróttu/KR.
Alexander á að baki 186 landsleiki fyrir Ísland þar sem hann skoraði 725 mörk og var kjörinn íþróttamaður ársins árið 2010. Hann vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 með íslenska landsliðinu og til bronsverðlauna á EM í Austurríki árið 2010. Þá var hann valinn í úrvalslið heimsmeistaramótsins árið 2011.
Alexander lék í Þýskalandi í 19 ár og spilaði þar með Düsseldorf, Grosswallstadt, Flensburg, Füchse Berlín, Rhein-Neckar Löwen og síðast með Melsungen. Hann vann þýska meistaratitilinn með Löwen árið 2016.