Valur lagði meistaraefnin

Aron Pálmarsson og Alexander Petersson í baráttunni.
Aron Pálmarsson og Alexander Petersson í baráttunni. mbl.is/Árni Sæberg

Valur vann FH 27:26 í stórleik umferðarinnar á Íslandsmótinu í handknattleik karla á Hlíðarenda í kvöld. Leikurinn var hluti af annarri umferð mótsins en bæði liðin unnu sína leiki í fyrstu umferðinni.

FH skoraði fyrsta mark leiksins eftir að Benedikt Gunnar Óskarsson hafði skotið yfir í fyrstu sókn Valsmanna. Liðin skiptust síðan á að skora en Valsmenn leiddu mest 5:3. FH náði að jafna í stöðunni 5:5 og 6:6 en þá fengu Valsmenn vítakast. Benedikt Gunnar tók vítið eftir að hafa skorað úr tveimur vítum áður. Hann skaut í andlitið á Daníel Frey í marki FH og fékk að líta rauða spjaldið. Umdeildur dómur þar sem það lítur út fyrir að Daníel hafi hreyft sig talsvert í vítinu. Þetta var mikil blóðtaka fyrir Val.

FH komst yfir í næstu sókn og hélt forskotinu það sem lifði fyrri hálfleiks. Mest komst FH í þriggja marka forystu í stöðunni 12:9. Daníel Freyr Andrésson fór algjörlega á kostum í fyrri hálfleik og varði 11 skot, þar af eitt vítaskot. Símon Michael Guðjónsson skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik fyrir FH líkt og Magnús Óli Magnússon fyrir Val. Björgvin Páll Gústafsson varði fimm skot í fyrri hálfleik fyrir Valsmenn.

Staðan í hálfleik var 17:16 fyrir FH og mega FH-ingar þakka Daníel í markinu fyrir góða markvörslu því vörn FH í fyrri hálfleik var með eindæmum léleg.

Í síðari hálfleik voru Valsmenn úrræðabetri í sóknarleik sínum og á sama tíma stimplaði Björgvin Páll Gústafsson sig heldur betur inn og varði hvert skotið á fætur öðru. Fyrsta mark síðari hálfleiks kom þó ekki fyrr en eftir þrjár mínútur þegar Valsmenn jöfnuðu í 17:17. Þá tók sókn FH-inga við sér og komust þeir í 20:17.

Eftir þetta byrjuðu Valsmenn að saxa hægt og rólega á FH og jöfnuðu loks í stöðunni 21:21 og tóku völdin á vellinum. Valur komst mest tveimur mörkum yfir í stöðunum 25:23, 26:24 og 27:25. Leiknum lauk eins og áður segir með sigri Valsmanna, 27:26.

Magnús Óli Magnússon átti stórgóðan leik og skoraði sjö mörk fyrir Valsmenn. Björgvin Páll Gústafsson átti stórkostlegan síðari hálfleik og varði í heildina 15 skot í leiknum, þar af eitt vítakast.

Í liði FH var markaskorun öllu dreifðari og skoruðu þeir Birgir Már Birgisson, Símon Micahel Guðjónsson og Jóhannes Berg Andrason fjögur mörk hver. Daníel Freyr Andrésson varði 18 skot í marki FH, þar af tvö vítaskot og er það honum að þakka að FH ætti einhvern möguleika í þessum leik.

Það vakti athygli hvað varnarleikur FH var afskaplega lélegur í leiknum og sóknarleikurinn ofboðslega hugmyndasnauður. Aron Pálmarsson eyddi miklum hluta leiksins á bekknum og komst aldrei í tak við leik FH-inga.

Valur er eftir þennan leik með fjögur stig eftir tvo sigurleiki en lið FH sem spáð er Íslandsmeistaratitlinum féll á stórleikjaprófinu í kvöld.

Valur 27:26 FH opna loka
60. mín. Daníel Freyr Andrésson (FH) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert