Jafntefli í hörkuleik á Akureyri

KA-maðurinn Jóhann Geir Sævarsson í dauðafæri í leiknum í kvöld.
KA-maðurinn Jóhann Geir Sævarsson í dauðafæri í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristín Hallgrímsdóttir

Fram og KA skildu jöfn, 34:34, í hörkuleik í úrvalsdeild karla í handknattleik í KA-heimilinu á Akureyri í kvöld.

Bæði liðin eru því með þrjú stig eftir fyrstu tvo leiki sína.

KA byrjaði betur, komst í 6:3 og 8:5 og í framhaldi af því í 11:7 um miðjan fyrri hálfleik. Framarar tóku þá góðan kipp, skoruðu sjö mörk gegn einu og voru komnir með forystu, 14:12, tíu mínútum síðar. KA komst yfir á ný, 16:15 og að lokum var það Reynir Þór Stefánsson sem skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og jafnaði fyrir Fram, 17:17.

Jafnt var á öllum tölum í byrjun síðari hálfleiks þar til KA breytti stöðunni úr 21:21 í 25:22. Framarar jöfnuðu, 28:28, þegar níu mínútur voru eftir. Liðin skiptust á um forystuna og Rúnar Kárason jafnaði fyrir Fram í 33:33 með sínu fjórtánda marki þegar tvær mínútur lifðu af leik.

Einar Rafn Eiðsson kom KA í 34:33 úr vítakasti en Arnar Snær Magnússon jafnaði fyrir Fram. Rúnar Kárason vann boltann fyrir Fram í síðustu sókn KA í blálokin en Bruno Bernat í marki KA varði síðan skot hans af eigin vallarhelmingi og jafnteflið var staðreynd.

Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 10, Ott Varik 8, Dagur Árni Heimisson 4, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Magnús Dagur Jónatansson 3, Jóhann Geir Sævarsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 1, Einar Birgir Stefánsson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 8.

Mörk Fram: Rúnar Kárason 14, Reynir Þór Stefánsson 6, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 4, Arnar Snær Magnússon 3, Tryggvi Garðar Jónsson 2, Marko Coric 2, Kjartan Þór Júlíusson 1, Eiður Rafn Valsson 1, Ívar Logi Styrmisson 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 5, Breki Hrafn Árnason 3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert