Dramatík í Úlfarsárdal

Tryggvi Garðar Jónsson sækir að varnarmönnum Aftureldingar í kvöld.
Tryggvi Garðar Jónsson sækir að varnarmönnum Aftureldingar í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Bragi Eyjólfsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson voru markahæstir hjá Aftureldingu þegar liðið heimsótti Fram í úrvalsdeild karla í handknattleik í Framhús í Úlfarsárdal í 3. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með tveggja marka sigri Aftureldingar, 32:30, en þeir Árni Bragi og Þorsteinn Leó skoruðu sjö mörk hvor.

Eftir leikinn er Afturelding með fjögur stig eftir þrjá leiki en Fram með þrjú stig. 

Mikill hraði var í leiknum frá fyrstu mínútu og skiptust liðin á að jafna og komast yfir í leiknum. Liðin voru þó bæðii frekar mistæk í sóknaraðgerðum sínum og voru stórskytturnar Þorsteinn Leó í liði Aftureldingar og Rúnar Kárason í liði Fram báðir frekar mistækir í fyrri hálfleik.

Eftir 24. mínútur af leiknum náði lið Fram undirtökunum í leiknum og leiddu mest með þriggja marka mun og voru hálfleikstölur 14:12 fyrir Fram.

Markverðir beggja liða áttu fínan fyrri hálfleik. Lárus Helgi Ólafsson varði 8 skot í marki Fram og þar af voru tvö vítaskot. Í marki Aftureldingar varði Brynjar Vignir Sigurjónsson 7 skot.

Lið Fram byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti og juku forskotið í fjögurra marka mun eftir 7 mínútur. Þá tók Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar leikhlé og las yfir sínum leikmönnum enda Fram miklu betri á öllum sviðum. Eftir leikhlé fóru hlutir að gerast hjá Aftureldingu og tókst þeim að minnka muninn niður í eitt mark í stöðunni 22:21 og aftur 25:24. Leikmenn Aftureldingar fengu mörg tækifæri til að jafna leikinn en nýttu færin sín afar illa og meðal annars eitt vítakast.

Á 54. mínútu braut Marko Coric mjög illa á Þorsteini Leó og fékk einungis tvær mínútur fyrir. Vildu margir meina að þarna hefði átt að útiloka Marko frá frekari þátttöku í leiknum.

Loksins tókst Aftureldingu að jafna í leiknum í stöðunni 27:27. Fram náði aftur forystunni í 28:27 en Afturelding jafnaði í 28:28 og aftur í 29:29. Þá hófst æsispennandi lokakafli þar sem Afturelding komst yfir í fyrsta skiptið í síðari hálfleik. Leiknum lauk með tveggja marka sigri Aftureldingar, 32:30 eftir æsispennandi lokamínútur.

Dómgæslan í kvöld var vægast sagt skelfileg oft á tíðum og þá sérstaklega á viðkvæmum tímapunktum í leiknum mátti halda að þeir Árni og Þorvar Bjarmi væru að halda tónleika með flautunum. Í lokin höfðu þeir litla stjórn á leiknum.

Rúnar Kárason og Tryggvi Garðar Jónsson skoruðu 6 mörk fyrir Fram. Lárus Helgi Ólafsson varði 10 skot í marki heimamanna. Í liði Aftureldingar skoraði Árni Bragi Eyjólfsson 7 mörk og varði Brynjar Vignir 8 skot. Jovan Kukobat varði 7 skot í síðari hálfleik og átti stóran þátt í að Afturelding náði að vinna hér í kvöld.

Fram 30:32 Afturelding opna loka
60. mín. Fram tekur leikhlé
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert