„Við stórfjölskyldan vorum loksins á leiðinni öll saman til Þýskalands á EM en svo varð ég ólétt,“ sagði Svava Kristín Grétarsdóttir, íþróttafréttakona á Stöð 2, í Fyrsta sætinu þegar rætt var um íslensku handboltalandsliðin.
Svava Kristín, sem hefur verið umsjónarmaður Seinni Bylgjunnar á Stöð 2 Sport undanfarin ár, er barnshafandi og á von á sér í janúar á næsta ári.
„Ég á að eiga í janúar þannig að ég er ekki að fara og mér tókst að eyðileggja fjölskyldufríið okkar,“ sagði Svava Kristín.
„Ég er líka búin að bíða eftir því að kvennalandsliðið færi á stórmót og núna get ég ekki fylgt þeim eftir heldur sem er svekkjandi en ég vona að Íslendingar fjölmenni til Noregs, það þýðir ekki bara að elta strákana,“ sagði Svava Kristín meðal annars.