Selfoss úr 1. deildinni gerði sér lítið fyrir og vann 34:22-stórsigur á Fram í bikarkeppni kvenna í handbolta í kvöld og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum.
Selfyssingar komust í 5:1 snemma leiks og voru hálfleikstölur 16:8. Var Fram aldrei líklegt til að jafna í seinni hálfleik og Selfoss fagnaði óvæntum stórsigri.
Tinna Sigurrós Traustadóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu átta mörk hvor fyrir Selfoss og Katla María Magnúsdóttir sex. Alfa Brá Hagalín skoraði sex fyrir Fram og þær Erna Guðlaug Gunnarsdóttir og Dagmar Guðrún Pálsdóttir fjögur hvor.
ÍBV ver ekki bikarmeistaratitilinn því Eyjakonur fengu stóran skell gegn Haukum á útivelli, 36:17. Léku liðin í undanúrslitum Íslandsmótsins á síðustu leiktíð og hafði ÍBV þá betur, en Haukar voru mun sterkari í kvöld.
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði níu mörk fyrir Hauka og Ragnheiður Ragnarsdóttir sex. Elísa Elíasdóttir og Sunna Jónsdóttir gerðu þrjú mörk hvor fyrir ÍBV.
Þá vann KA/Þór auðveldan 36:7-útisigur á Berserkjum. Bergrós Ásta Guðmundsdóttir skoraði átta mörk fyrir KA/Þór og Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir sjö. Katrín Guðmundsdóttir gerði þrjú fyrir Berserki.