Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í japanska karlalandsliðinu í handbolta tryggðu sér í dag sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó næsta sumar með 32:29-sigri á Barein í úrslitaleik undankeppninnar í Asíu, en leikið var í Katar.
Japanska liðið var sterkara nánast allan tímann og var staðan í hálfleik 18:13, Japan í vil. Barein minnkaði muninn aðeins í seinni hálfleik, en forskoti Japans var ekki ógnað að ráði.
Ekki er öll nótt úti enn fyrir Aron Kristjánsson og lærisveina hans í Barein, því liðið fer í umspil með liðum úr öðrum heimsálfum þar sem sæti á leikunum er undir.