Gísli Þorgeir að nálgast endurkomu?

Gísli Þorgeir Kristjánsson fagnar eftir að hafa unnið Meistaradeild Evrópu …
Gísli Þorgeir Kristjánsson fagnar eftir að hafa unnið Meistaradeild Evrópu með Magdeburg í sumar. Ljósmynd/@SCMagdeburg

Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, gæti hafið leik að nýju með Evrópumeisturum Magdeburgar fyrr en áður var talið.

Gísli Þorgeir gekkst undir skurðaðgerð á öxl í sumar eftir að hafa farið úr axlarlið í leik með Magdeburg í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu en samt spilað úrslitaleikinn degi síðar.

Hann hefur nokkrum sinnum áður farið úr axlarlið og var ljóst eftir að Gísli Þorgeir gekkst undir aðgerðina í júlí að hann yrði í kapphlaupi við tímann ætlaði hann sér að ná að spila nokkra leiki með Magdeburg í desember og fara svo með íslenska landsliðinu á EM 2024 í Þýskalandi í janúar.

„Endurhæfingin hefur gengið samkvæmt áætlun. Ég er bjartsýnn á að geta farið að spila fyrr en upphaflega var áætlað.

Ég fer mér að engu óðslega og tek enga áhættu. Ég mæti til leiks þegar ég treysti öxlinni alfarið,“ sagði Gísli Þorgeir í samtali við staðarblaðið Magdeburger Volksstimme.

Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburgar, tók í sama streng í samtali við blaðið og sagði horfurnar á því að Gísli Þorgeir gæti spilað í desember væru góðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert