Ísland marði sigur í síðari vináttuleik sínum gegn Færeyjum í Laugardalshöll í dag, 30:29.
Ísland vann fyrri leikinn með yfirburðum, 39:24, en færeyska liðið er eitt mest spennandi lið Evrópu.
Fyrri hálfleikur liðanna var keimlíkur leik gærdagsins en jafnræði var á með liðunum fyrstu 25 mínútur leiksins með undantekningu þó. Eftir 11 mínútna leik leiddi íslenska liðið með fjórum mörkum 8:4. Þá settu Færeyjar í annan gír og jöfnuðu leikinn í stöðunni 9:9 og komust yfir í stöðunni 10:11.
Þá settu íslensku strákarnir allt í botn og keyrðu fram úr þeim færeysku líkt og í leiknum í gær. Staðan í hálfleik 16:12 fyrir Ísland.
Viggó Kristjánsson og Ómar Ingi Ómarsson skoruðu 3 mörk hvor í fyrri hálfleik og Viktor Gísli Hallgrímsson varði 8 skot.
Í liði Færeyja skoraði Hákun West av Teigum 6 mörk í fyrri hálfleik og Nicholas Satchwell varði 5 skot.
Færeyingar skoruðu tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks og minnkuðu muninn í 16:14 og jöfnuðu síðan í stöðunni 18:18. Eftir það var leikurinn í járnum alveg fram á 58 mínútu en færeyingar komust í tveggja marka forystu í stöðunni 15:17 og 21:23. Íslendingar jöfnuðu síðan í stöðunni 23:23 og náðu að lokum að vinna leikinn 30:29.
Markahæstur í liði íslendinga var Ómar Ingi Ómarsson með 6 mörk, þar af 3 úr vítaskotum. Aron Pálmarsson, Viggó Kristjánsson og Elliði Snær Viðarsson skoruðu allir fjögur mörk hver.
Hjá Færeyjum voru þeir Hákun West av Teigum með 9 mörk og Elías Ellefsen á Skipagötu með 7 mörk, þar af 2 úr vítaskotum.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði 11 skot og var með um 40% markvörslu í leiknum. Björgvin Páll varði 3 skot, þar af eitt vítaskot.
Nicholas Statchwell varði 9 skot í marki Færeyja.
Þetta var síðasti heimaleikur Íslands áður en þeir taka þátt í stórmóti í janúar 2024.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.