Marta Wawrzynkowska átti frábæran leik í marki ÍBV er liðið vann KA/Þór með 25 mörkum gegn 16 í dag. Leikurinn var sá síðasti í 8. umferð Olísdeildarinnar en KA/Þór kom á heimavöll deildar- og bikarmeistara ÍBV eftir að hafa unnið tvo síðustu leiki.
„Lykillinn var liðsheildin, við spiluðum vel saman sem lið og mér fannst allar leggja sig fram fyrir liðið. Allar skiluðu sínu hlutverki vel,“ sagði Marta í samtalið við mbl.is, og var auðvitað ánægð með sigurinn. Hún varði 14 skot af þeim 25 sem rötuðu á mark hennar sem skilaði henni 56% markvörslu.
ÍBV keyrði yfir KA/Þór í fyrri hálfleiknum en staðan að honum loknum var 14:8. Sunna leiddi liðið í markaskorun og gerði helming marka ÍBV í fyrri hálfleik.
„Það var mjög mikilvægt að byrja svona vel, það skipti okkur miklu máli að hefja leikinn frá fyrstu mínútu. Hún var að skila frábæru hlutverki og við erum einnig með marga unga leikmenn sem þurfa spiltíma og fengu hann í dag.“
Margir af lykilleikmönnum ÍBV eiga við meiðsli að stríða, Britney Cots, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Birna Berg Haraldsdóttir eru fjarri góðu gamni. Hvernig hefur liðið breyst við það?
„Stundum meiðast leikmenn og við þurfum að fylla í þeirra skörð, við gerum það með ungu leikmönnunum sem hafa ekki mikla reynslu en passa mjög vel inn í liðið okkar. Þær leggja hart að sér og vilja læra, þær hafa leikið með okkur núna síðustu vikur og hefur gengið vel eins og sást í dag.“
ÍBV hafði tapað síðustu tveimur deildarleikjum gegn Fram og Stjörnunni og einnig tapaði liðið með 19 marka mun gegn Haukum í bikarnum. Það hefur því verið kærkomið að vinna loks leik í dag.
„Við sýndum góðan karakter og það er góður mórall í liðinu, við erum allar mjög góðar vinkonur og það er mikill kraftur í stelpunum á æfingum. Það kemur ekkert sjálfkrafa, við höfum lagt hart að okkur til að sækja þennan sigur.“
ÍBV varð deildar- og bikarmeistarari á síðustu leiktíð. Nú er liðið úr leik í bikarnum og staðan ekki frábær í deildinni, það er ljóst að þetta tímabil verður ekki eins og það síðasta.
„Þetta hefur verið frekar erfið byrjun á leiktíðinni, en þetta er bara upphafið, við erum að stefna á að enda eins ofarlega í deildinni og við getum. Það er markmiðið okkar og við erum hungraðar í að sigra leiki.“
Marta er á því að örlitla breidd hafi vantað í liðið á lokasprettinum í fyrra þegar Valskonur unnu Íslandsmeistaratitilinn, hún vonast til þess að hópurinn verði breiðari á lokametrunum í ár.
„Frá upphafi vildum við spila ungu stelpunum, sem eru uppaldar hjá ÍBV og þær fá fleiri tækifæri núna, við sáum í fyrra að í úrslitakeppninni skiptir máli að vera með breiðan leikmannahóp. Ég held að ein af ástæðunum að við unnum ekki Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð hafi verið þetta, þess vegna höfum við reynt að stækka hópinn í ár.“
„Við erum spenntar fyrir því verkefni, við ætlum að gefa okkur allar í þetta. Við þekkjum liðið þar sem við kepptum við þær í fyrra,“ sagði Marta að lokum um verkefnið sem bíður liðsins í Portúgal næstu helgi, þar sem ÍBV leikur í Evrópubikarnum.