Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari íslenska landsliðsins í handbolta var ekki jafn kátur með leikinn í kvöld og í gær. Hann var þó ánægður með að hafa unnið báða leikina.
„Þetta var hörkuleikur. Mjög erfiður leikur. Við vorum ekki nægilega góðir í kvöld. Þeir gera vel með að spila 7 á 6 allan leikinn og þeir gera það vel. Við náum ekki að finna nægilega góð svör við þeirra sóknarleik.
Á sama tíma eru þeir að fá fín færi og markverðirnir okkar að fá erfið skot á sig. Þeir stjórnuðu hraðanum í dag en við í gær og við vorum bara ekki í nægilega góðum takti,“ segir Snorri í samtali við mbl.is.
Voru menn þreyttir eftir gærdaginn?
„Nei ég vill ekki meina það. Við rúlluðum vel á liðinu bæði í gær og í dag og strákarnir eru í mjög góðu formi. Nei það var engin þreyta.
Leikurinn var hægari sem er oft raunin þegar lið spila 7 á 6. Þetta voru fínir leikir og fullt sem við þurfum að skoða og laga. Það er núna verkefnið að skoða það allt.“
Er margt sem þarf að skoða og laga eftir þetta verkefni?
„Já alveg pottþétt og við sjáum það ekki bara í leikjunum heldur líka á æfingum. Núna tekur bara við sú vinna að kryfja allt betur og sjá hvað var gott og hvað var ekki eins gott.
Síðan mætum við tilbúnir í æfingaleikina 6. og 8. janúar gegn Austurríki.“