Gísla þyrstir í að komast á EM

Gísli Þorgeir Kristjánsson.
Gísli Þorgeir Kristjánsson. mbl.is/Óttar Geirsson

Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Magdeburgar í Þýskalandi, kveðst staðráðinn í að taka þátt á EM 2024 í Þýskalandi þrátt fyrir að vera að jafna sig á alvarlegum axlarmeiðslum.

Gísli Þorgeir gekkst undir skurðaðgerð á hægri öxl í sumar eftir að hafa farið úr lið í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Öxlinni var kippt í lið og fór hann í kjölfarið á kostum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar daginn eftir, sem Magdeburg vann.

Í samtali við Magdeburger Volksstime á dögunum sagði Gísli Þorgeir að endurhæfingin gangi vel og að hann væri bjartsýnn á að geta byrjað að spila fyrr en upphaflega var áætlað.

Vel á undan áætlun

„Vinstri öxlin er meira upp á vörnina og ég passa að hún sé ekki að detta úr lið. Þetta er öðruvísi endurhæfing að því leytinu til að ég er að skjóta með þessari hönd og kasta.

Ég þarf alltaf að nota hana og þetta er miklu erfiðara. [É]g myndi segja að ég væri vel á undan áætlun,“ sagði Gísli Þorgeir í samtali við RÚV í gær.

Kvaðst hann þar vera bjartsýnn á að geta verið með íslenska landsliðinu á EM, sem hefst 12. janúar.

„Ég er ótrúlega spenntur. Að komast aftur í gírinn og spila handbolta. Það er ógeðslega gaman að spila þessi stórmót og mig þyrstir í það að spila aftur með íslenska landsliðinu.“

Alveg hreinar línur

Í samtali við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun með Valtý Birni tók Gísli Þorgeir dýpra í árinni þegar hann var spurður hvort hann hygðist vera með á EM.

„Það eru alveg hreinar línur. Það er allavega markmið mitt, nema eitthvað mjög slæmt gerist, sem ég reikna ekki með.

Maður veit aldrei en ég myndi segja að eins og staðan er í dag lítur það gríðarlega vel út. Ég er gríðarlega spenntur fyrir janúar og bara mjög heitur fyrir þessu móti,“ sagði Gísli Þorgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert