Elín Klara Þorkelsdóttir verður ekki með íslenska kvennalandsliðinu í handknattleik á heimsmeistaramótinu í Danmörku, Noregi og Svíþjóð sem hefst í næstu viku.
Þetta tilkynnti Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, í fréttatilkynningu sem sambandið sendi frá sér í dag.
Elín Klara, sem er 19 ára gömul og samningsbundin Haukum, hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins undanfarin ár en hún er að glíma við ökklameiðsli.
Katla María Magnúsdóttir hefur verið kölluð inn í hópinn í hennar stað en hún er 22 ára gömul og er samningsbundin Selfoss í 1. deildinni.
Ísland leikur í D-riðli heimsmeistaramótsins ásamt Frakklandi, Slóveníu og Angóla en riðillinn verður leikinn í Stavanger í Noregi.