Ég er aðeins eldri núna!

Sunna Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sunna Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta leggst ótrúlega vel í okkur. Það er mikill spenningur og tilhlökkun, sem er eðlilegt. Loksins er að koma að þessu,“ sagði Sunna Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik.

Mbl.is náði tali af henni fyrir fyrstu æfingu liðsins í undirbúningi sínum fyrir HM 2023 í Kaplakrika í gær. Mótið fer fram í Noregi, Danmörku og Svíþjóð og hefst í næstu viku.

Íslenska liðið æfir einnig í Kaplakrika í dag en heldur af landi brott á morgun og tekur í undirbúningi sínum þátt í alþjóðlegu móti í Noregi, Posten Cup, þar sem liðið leikur gegn Noregi, Póllandi og Angóla.

„Það gefur okkur mjög mikið. Þetta eru virkilega sterkir og góðir leikir sem við fáum í sama umhverfi og stórmótið er í.

Það verða mikið af áhorfendum, mikil umgjörð og umfjöllun í kringum allt þannig að þetta er mjög lærdómsríkt fyrir okkur að fá þetta mót,“ sagði Sunna um Posten Cup.

Gaman að mæta afrísku liði

Ísland leikur sömuleiðis riðil sinn á HM í Noregi, nánar tiltekið í Stafangri. Með íslenska liðinu í D-riðli er Angóla, og mætast liðin því bæði á HM og Posten Cup.

Er það gott eða slæmt að mæta Angóla tvisvar?

„Ég er mjög jákvæð fyrir því og tel það eiginlega vera gott. Angóla, það er gaman að fá að mæta afrísku liði.

Það gerist ekki oft og þær spila öðruvísi handbolta og allt annað í kringum þær er öðruvísi. Ég held að fyrir okkur gæti það bara verið gott. Við gætum unnið þær á taktík í leik tvö,“ sagði hún.

Ætlum að njóta

Sunna er ein af aðeins tveimur leikmönnum íslenska liðsins sem hefur áður tekið þátt á stórmóti. Það gerði hún á EM 2010. Hin er Þórey Rósa Stefánsdóttir, sem tók þátt á síðustu tveimur stórmótum Íslands: EM 2012 og HM 2011.

„Ég er aðeins eldri núna! Við erum tvær sem höfum farið á stórmót og þetta er allt öðruvísi. Við erum alveg meðvitaðar um það að þetta er langur tími, stórir leikir og allt önnur umgjörð.

Þetta verður ótrúlega skemmtilegt og krefjandi, stundum erfitt líka en við erum tilbúnar í allt og fyrst og fremst ætlum við að njóta þess að vera þarna,“ sagði Sunna og kvaðst búa að reynslunni frá EM 2010.

Getum strítt öllum liðum

Ísland er ásamt Angóla með Slóveníu og Frakklandi í D-riðli. Hún fór ekki leynt með að markmiðið væri að vinna Angóla og tryggja sér þannig sæti í milliriðli á heimsmeistaramótinu.

„Já. Þetta var klárlega sterkur andstæðingur að fá upp úr þriðja styrkleikaflokknum en okkur eru allir vegir færir og við erum bara virkilega góðar handboltakonur.

Við tökum bara einn leik í einu, skoðum frammistöðuna í hverjum leik og gerum okkar besta. En við getum alveg strítt Slóveníu og Angóla og Frökkum á góðum degi,“ sagði Sunna að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert