Eyjamenn upp fyrir Framara

Framarinn Reynir Þór Stefánsson skýtur að marki ÍBV í kvöld.
Framarinn Reynir Þór Stefánsson skýtur að marki ÍBV í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram og ÍBV áttust við í kvöld í úrvalsdeild karla í handbolta og lauk leiknum með útisigri ÍBV, 38:32. Með sigrinum komst ÍBV yfir Fram að stigum en fyrir leikinn voru liðin í 4. og 5. sæti með 11 stig hvort.

Liðin buðu upp á hörkuleik í fyrri hálfleik þar sem aldrei munaði miklu á liðunum. Talsverð harka og hraði var í upphafi leiks og fóru þrjú gul spjöld á loft og voru liðin með leikmann út af í samtals sex mínútur vegna brottvísana.

Eyjamenn leiddu þó allan fyrri hálfleik þrátt fyrir að lið Fram væri ítrekað að jafna leikinn. Eyjamenn náðu mest að komast fjórum mörkum yfir í stöðunni 12:8 en þann mun minnkaði lið Fram með mikilli seiglu og dugnaði. Hálfleikstölur í Úlfarsárdal voru 18:17 fyrir ÍBV.

Elmar Erlingsson skoraði sex mörk í fyrri hálfleik fyrir ÍBV en Reynir Þór Stefánsson fimm mörk fyrir Fram. Ekki var mikið um markvörslu í fyrri hálfleik hjá báðum liðum.

Reynir Þór Stefánsson byrjaði síðari hálfleikinn á að jafna leikinn fyrir Fram. Því svaraði ÍBV með tveimur mörkum og kom Eyjamönnum í 20:18. Leikmenn Fram voru aldrei langt undan og tókst þeim að jafna í stöðunni 24:24.

Þá kom slæmur kafli hjá liði Fram og sigu Eyjamenn aftur fram úr. Það leit helst út fyrir að leikmenn Fram ættu í sálrænum vandræðum með að vera of nálægt ÍBV í markaskorun því alltaf þegar þeir voru búnir að jafna eða einu marki undir þá var eins og stress kæmi í leik þeirra og allt fór úr böndunum hjá þeim.

Einnig var afar dýrkeypt fyrir Framara að brenna af tveimur vítaskotum í röð þegar þeir hefðu getað minnkað muninn niður í eitt mark. Eyjamenn reyndust sterkari á lokasprettinum og juku muninn hægt og náðu mest átta marka forystu í leiknum. Fram náði þó að klóra í bakkann og lauk leiknum með sigri ÍBV, 38:32.

Markahæstur í liði Fram var Reynir Þór með tíu mörk en í liði ÍBV skoraði Elmar Erlingsson níu mörk. Lítið var með markvörslu í leiknum en Petar Jokanovic varði 11 skot í marki ÍBV.

ÍBV á næst leik gegn HK í Vestmannaeyjum þann 29. nóvember en Fram leikur næst gegn Haukum á Ásvöllum þann 30. nóvember.

Fram 32:38 ÍBV opna loka
60. mín. Fram skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert