„Maður er búinn að vera ótrúlega spenntur en finnur það núna að það er að koma svona auka spenningur.
Það eru tvær æfingar núna heima og svo fljúgum við út til að spila þrjá leiki fyrir HM,“ sagði Sandra Erlingsdóttir, lykilmaður íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik og leikmaður Metzingen í Þýskalandi, við Morgunblaðið fyrir landsliðsæfingu í Kaplakrika í gær.
Ísland tekur þátt í alþjóðlegu móti í undirbúningi sínum fyrir HM. Mótið, sem ber heitið Posten Cup, fer líkt og riðill Íslands á HM fram í Noregi og hefst á fimmtudag.
Þar mætir liðið heimakonum í Noregi, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, Póllandi og Angóla. Síðastnefnda liðið er með Íslandi í D-riðli á HM.
„Ég held að það sé ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að fá þessa þrjá leiki og aðeins fá smjörþefinn af þessu, að vera komnar út saman áður en við förum alveg inn á stóra sviðið,“ sagði Sandra.
Hún er 25 ára gömul en er þrátt fyrir það einn af reyndari leikmönnum liðsins. Sandra kvaðst reiðubúin að taka að sér leiðtogahlutverk á heimsmeistaramótinu.
„Algjörlega. Ég er kannski ekki gömul en alveg með fína reynslu samanborið við marga í liðinu. Maður gefur af sér það sem maður getur og reynir að hjálpa öllum.
Við reynum allar að hjálpa hverri annarri og styðjum við hverja aðra,“ sagði Sandra.
Hún hefur verið í stóru hlutverki hjá Metzingen á tímabilinu og er því á afar góðum stað nú þegar hennar fyrsta stórmót með landsliðinu nálgast óðfluga.
„Já algjörlega. Ég er ekki búin að vera að glíma við nein meiðsli núna upp á síðkastið, er búin að vera að spila mjög mikið með mínu liði og það er búið að ganga vel,“ sagði Sandra.