Landsliðsmaðurinn sterkur í Evrópusigri

Orri Freyr Þorkelsson var sterkur í liði Sporting.
Orri Freyr Þorkelsson var sterkur í liði Sporting. Ljósmynd/Sporting

Sporting frá Portúgal vann í kvöld öruggan 36:28-heimasigur á Tatabánya frá Ungverjalandi í H-riðli í Evrópudeild karla í handbolta.

Orri Freyr Þorkelsson átti flottan leik fyrir Sporting og skoraði sex mörk. Var hann næstmarkahæstur í sínu liði. Sporting er í öðru sæti með fjögur stig eftir fjóra leiki.

Í A-riðli vann franska liðið Nantes 31:27-heimasigur á Svíunum í Kristianstad. Viktor Gísli Hallgrímsson stóð vaktina í marki Nantes með ágætum og varði tíu skot.

Nantes er í öðru sæti með sex stig, tveimur stigum á eftir Íslendingaliði Rein-Neckar Löwen. Stiven Tobar Valencia og félagar í Benfica eru í þriðja sæti með tvö stig.

Loks skoraði Teitur Örn Einarsson þrjú mörk fyrir þýska stórliðið Flensburg í 38:35-heimasigri á Elverum frá Noregi. Flensburg er í toppsæti E-riðils með átta stig, tveimur meira en Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar í Kadetten.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert