Kári Kristján Kristjánsson, línumaður ÍBV, var léttur eftir þægilegan sex marka sigur á Fram í úrvalsdeild karla í handbolta í Úlfarsárdal í kvöld.
„Fyrri hálfleikurinn var svolítið eins og við værum smjör, alltaf að smyrja en aldrei að skera! Við skorum alveg 18 mörk en vorum samt ekki nægilega beittir í fyrri hálfleik,“ sagði Kári við mbl.is eftir leik.
ÍBV var yfir allan leikinn og var Kári ánægður með það.
„Já, við leiðum allan leikinn og erum alltaf miklu betra lið í kvöld. Þá vantar Rúnar Kárason, Marío, Marko o.fl. Þeir þurfa að treysta á Reyni og Ívar allan leikinn og það hefur eflaust verið mjög erfitt fyrir ungt lið Fram að spila gegn okkur í kvöld.“
Var það reynslan sem vann í kvöld?
„Reynslan og gæðin. Við erum töluvert betra lið. Ef þú skoðar liðin sem voru að spila í kvöld, maður fyrir mann þá erum við með miklu betra lið og þessi úrslit koma ekkert á óvart.“
Hvað gerir gæfumuninn í kvöld?
„Það sem gerði það að verkum að við fórum að sigla fram úr þeim var að við fórum að vinna bolta, fáum auðveld mörk, þeir fara að láta reka sig út af og þetta spilaði allt saman. Síðan erum við bara betri í handbolta heldur en Fram í kvöld.“
Næsti leikur er Evrópuleikur í Austurríki. Hvernig verður prógrammið hjá ÍBV fram að jólum?
„Við þurfum að verða jólasveinar fram að jólum og safna öllum stigum sem við getum í jólasveinapokann okkar og núlla fyrir nokkrar skitur sem við höfum gert í haust,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson við mbl.is.