Vorum sjálfum okkur verstir

Einar Jónsson ræðir við sitt lið í kvöld.
Einar Jónsson ræðir við sitt lið í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Jónsson, þjálfari Fram, var svekktur með tap gegn ÍBV í kvöld í úrvalsdeild karla í handbolta. Framliðið spilaði án mikilvægra leikmanna eins og Rúnars Kárasonar og Marko Coric.

Hvað gerði það að verkum að ÍBV náði að sigla fram úr þínu liði í lokakaflanum?

„Það sem maður er óánægðastur með er að við klúðrum tveimur vítum í röð á mikilvægum tímapunkti og svo bara fullt af dauðafærum.

Eyjamenn voru líka að spila frábæran sóknarleik á meðan vörn og markvarsla var ekki góð hjá okkur. Við hefðum þurft að skora í hverri einustu sókn til að eiga möguleika í kvöld. Við töpuðum bara fyrir betra liði í kvöld.“

Þið söknuðuð Rúnars í kvöld?

„Já og ekki bara Rúnars heldur líka Marko, Lalla og síðan getur Gauti ekki spilað sóknarleik. Aldurinn á liðinu í kvöld var ekki hár en það er engin afsökun og við stóðum í þeim framan af. Við vorum bara sjálfum okkur verstir og við töpuðum bara fyrir hágæða handboltaliði í kvöld.“

Það var samt eftirtektarvert að í hvert sinn sem Framliðið gat jafnað eða komist yfir gegn ÍBV þá var eins og taugaveiklun gripi liðið. Varð reynsluleysi ungra leikmanna Fram að falli í kvöld?

„Jú, það var svo sem ekki mikil reynsla í liðinu sem spilaði í kvöld og það má vera að þegar þú ert kominn í dauðafæri og getur jafnað eða komist yfir að þá gæti það alveg verið.“

Næsti leikur er á móti Haukum á Ásvöllum. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?

Við vorum komnir á gott skrið áður en við töpuðum í bikarnum og svo aftur í kvöld. Við ætlum að þétta raðirnar og koma okkur aftur á sigurbraut á Ásvöllum.“

Verður Rúnar með í næsta leik?

„Ég get ekki alveg svarað því en já ég vona það,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert