„Það er bara spenningur. Við erum að hittast í dag og hefja formlega þennan undirbúning fyrir komandi átök og maður er fullur tilhlökkunar,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, reynslumesti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu landsliðsins í Kaplakrika á mánudag.
Nú fer í hönd undirbúningur fyrir HM 2023 sem fer fram í Noregi, Danmörku og Svíþjóð og hefst í næstu viku. Fyrst tekur hins vegar við þátttaka í sterku alþjóðlegu móti, Posten Cup, sem fer fram í Lillehammer í Noregi.
„Það eru tvær æfingar og svo förum við út á miðvikudag [í dag]. Það er væntanlega einhver létt æfing þá og svo strax leikur gegn Póllandi á fimmtudaginn í Lillehammer.
Þetta er alvöru prógramm sem er búið að leggja upp fyrir okkur og þetta verður ábyggilega krefjandi og gaman og alls konar. Það er bara að gera sem best úr þessu,“ sagði Þórey Rósa, sem er 34 ára gömul og leikur í hægra horni.
Á Posten Cup mætir Ísland ásamt Póllandi heimakonum í Noregi, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, og Angóla.
„Besti undirbúningurinn er að spila leiki og þetta verður svolítil eldskírn, þetta er stórt mót. Það er alvöru umgjörð á þessu móti og vonandi förum við vel með það að fá þetta mót og komum tilbúnar í slaginn á HM,“ bætti hún við.
Viðtalið við Þóreyju Rósu má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.