Viljum vera áskrifendur að stórmótum

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir (nr. 15) stillir sér upp fyrir landsleik …
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir (nr. 15) stillir sér upp fyrir landsleik gegn Lúxemborg í síðasta mánuði. Eggert Jóhannesson

„Það er mikill spenningur. Þetta er eitthvað sem við erum búin að horfa mikið til og það er bara geggjað að vera komin hingað,“ sagði Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, landsliðskona í handknattleik, í samtali við mbl.is fyrir æfingu liðsins í Kaplakrika á mánudag.

Íslenski hópurinn hélt utan til Noregs í dag og mun þar taka þátt á alþjóðlegu móti, Posten Cup, í Lillehammer áður en þátttaka á HM 2023 bíður í næstu viku.

„Mér finnst það geggjað. Það er geggjað að fá leiki við eitt af bestu liðunum og besta liðið, fá að máta sig við þær. Það verður mjög gaman og mikil reynsla,“ sagði Jóhanna Margrét um þátttökuna á Posten Cup.

Þar mun Ísland mæta Noregi, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, Póllandi og Angóla. Fyrsti leikur er strax á morgun gegn Póllandi.

Allt í lagi að mæta Angóla tvisvar

Ísland er í D-riðli á HM 2023, sem verður leikinn í Stafangri í Noregi, og er þar með Frakklandi, Slóveníu og Angóla.

Hvernig verður það fyrir ykkur að mæta Angóla tvisvar?

„Ég held að það verði allt í lagi. Það er fínt að geta borið okkur saman við þær strax og þá veit maður við hverju á að búast þegar við mætum þeim aftur.

Við getum þá gert betur eða byggt ofan á því sem við vorum að gera á móti þeim í fyrri leiknum,“ sagði hún.

Líklegt má þykja að einn sigur í D-riðli muni duga til þess að tryggja sæti í milliriðlum og viðurkennir Jóhanna Margrét að þar líti Ísland helst til leiksins gegn Angóla.

„Já, klárlega. Það verður spennandi að sjá hvernig það fer.“

Spennandi að reyna að koma handboltanum á hærra plan

Jóhanna Margrét, sem leikur með Skara í Svíþjóð, tilheyrir nýrri kynslóð handknattleikskvenna á Íslandi. Hún er 21 árs og á leiðinni á sitt fyrsta stórmót með A-landsliðinu líkt og flestir leikmenn liðsins.

„Það er mjög spennandi verkefni. Það er spennandi að fá að taka þátt í þessu og reyna að koma handboltanum á hærra plan, að fá að vera áskrifendur að þessum stórmótum.

Maður hefur farið á svona stórmót með yngri landsliðunum en hefur þá bara verið í B-deildinni. Þannig að það er geggjað að geta komist á alvöru stórmót, hvað þá með A-landsliðinu,“ sagði hún.

Jóhanna Margrét vonast til þess að HM 2023 verði fyrsta stórmót af mörgum á næstu árum hjá íslenska liðinu og segir að næsta markmið þess sé að komast EM 2024.

„Já, klárlega. Maður horfir líka mikið til framtíðar. Við reynum okkar allra besta á þessu móti og svo er bara að byggja ofan á því,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert