„Líðanin er góð. Það er búinn að vera spenningur fyrir þessum degi, að hittast, og það er að mörgu að huga,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is fyrir æfingu í Kaplakrika á mánudag.
Íslenska liðið undirbýr sig nú fyrir þátttöku á HM 2023, sem hefst í næstu viku.
„En það er góð tilfinning sem fylgir því að þetta sé loksins að fara af stað. Við finnum það alveg að það er tilhlökkun í hópnum og það eru spennandi dagar fram undan,“ bætti Arnar við.
Áður en Ísland hefur leik í D-riðli á heimsmeistaramótinu í Stafangri í Noregi eftir slétta viku tekur liðið þátt í sterku alþjóðlegu móti, Posten Cup, í Lillehammer.
„Það er mjög gott. Það er í raun og veru það sem við horfum á. Hver leikur sem við spilum skiptir okkur miklu máli. Við fáum þarna boð um að taka þátt í þessu móti, sem við þiggjum með þökkum.
Það er mjög sterkt og það er mikilvægt að fá æfingaleiki fyrir mótið. Það er ekkert auðvelt að fá leiki hérna heima þannig að það að fá þetta boð kom sér mjög vel,“ sagði hann.
Fyrsti leikur liðsins á Posten Cup fer fram í dag, þar sem liðið mætir Póllandi klukkan 15.45.
„Við horfum aðeins á þetta heildrænt. Við fáum þrjá alvöru leiki og svo fáum við allavega sex leiki í viðbót á HM, sem skiptir okkur gríðarlegu máli upp á allt það að gera sem kemur í framhaldinu.
Markmiðið er að stíga skref fram á við í hverjum leik og ef það gengur upp þá er það að fara að hjálpa okkur helling,“ útskýrði Arnar.
Á Posten Cup mun Ísland mæta einnig mæta Angóla og Noregi, sem Þórir Hergeirsson þjálfar. Angóla er sömuleiðis með íslenska liðinu í riðli á HM.
„Það er bæði jákvætt og neikvætt að mæta þeim ef við erum alveg hreinskilin með það. Við töldum það vera mikilvægara að komast að á þessu móti frekar en að sleppa því af því að Angóla er þar.
Fyrir þær er það kannski alveg jafn skrítið og fyrir okkur. Þær vita kannski lítið um okkur. Ég taldi það vera mikilvægara að fá þrjá leiki þó að Angóla sé þar. Það er bara eins og staðan er,“ sagði hann um hvernig það yrði að mæta Angóla tvisvar.
Íslenski hópurinn æfði í Kaplakrika á mánudag og þriðjudag og flaug svo út til Noregs í gær.
„Við fáum tvær góðar æfingar hérna. Það fylgir þessu auðvitað hellingur. Það er svona amstur í kringum þetta, myndatökur og annað sem truflar aðstæður þannig að það verður bara mjög gott að komast út og fara að einbeita okkur að boltanum“ sagði Arnar að lokum.