Hef ekki hjarta og sál í svona spennu

HK vann Stjörnuna í miklum spennuleik.
HK vann Stjörnuna í miklum spennuleik. mbl.is/Árni Sæberg

Sebastian Alexanderson, þjálfari HK, var auðmjúkur eftir sigur liðsins á Stjörnunni í kvöld en með sigrinum komst HK upp í 8. sæti úrvalsdeildar karla í handbolta og úr fallsæti.

„Stjarnan er með flott lið og búnir að vera bæta sig jafnt og þétt þannig að ég verð að viðurkenna að ég var svolítið smeykur fyrir þennan leik."

Lykillinn að þessum sigri hlítur samt að vera markvarslan í kvöld?

„Sigurjón var frábær í kvöld og búinn að vera í síðustu leikjum. Við Guðfinnur vorum heppnir með það að innáskiptingarnar voru að virka í dag og við fengum eitthvað frá öllum sem komu inná.

Þegar eitt blys slokknaði þá kviknaði bara á öðru blysi. Við klikkum samt á víti og dauðfærum í lokin ásamt því að við skjótum framhjá tómu marki. Þetta er of mikil spenna fyrir mig og við þurfum að loka svona leikjum fyrr. Ég hef ekki hjarta og sál í svona spennu."

Þetta hlítur að vera mjög mikilvægur sigur í ljósi þess að með sigrinum fer HK úr fallsæti og alla leið upp í 8. sætið ásamt því að skilja Stjörnuna eftir í fallsæti?

Sebastian Alexandersson var sáttur eftir spennuleik.
Sebastian Alexandersson var sáttur eftir spennuleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Jú málið er samt það að við gerðum þau mistök þegar við spiluðum við Selfoss þá fórum við í þann leik á þeim forsendum að við yrðum að vinna og að það væri úrslitaleikur, svokallaður fjögurra stiga leikur. Við brenndum okkur á því að stilla þessu þannig upp og töpuðum þeim leik.

Að mínu mati áttum við að vinna þann leik. Bæði leikurinn í kvöld og á móti Víkingi þá erum við ekkert að hugsa um að þetta séu fjögurra stiga leiki. Við förum bara í hvern leik og reynum að vinna alla leiki, gerum okkar besta og svo verðum við bara að vona að það verði nógu mörg stig í pottinum okkar til að halda okkur uppi."

Hvað stendur upp úr í sigrinum í kvöld?

„Vörnin okkar var mjög góð, sérstaklega þegar Stjarnan spilaði 7 á 6. Mér finnst rosalega góð samstaða og barátta í hópnum. Menn taka sínum hlutverkum með æðruleysi, setja sín persónulegu egó til hliðar og það er ofboðslega mikill styrkur.

Við erum agaðir í sóknarleiknum í kvöld og við leitum að lausnum í sóknarleiknum þrátt fyrir að hann sé stundum svolítið óþjáll en það er bara útaf meiðslastöðunni."

Er langt í leikmenn af meiðslalistanum?

„Júlíus, Ari og Pálmi verða líklega ekkert aftur með fyrr en í Febrúar. Við fengum Kristó í dag en hann getur líklega ekki spilað alla leiki og þarf eflaust að hvíla í næsta leik," sagði Sebastian í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert