Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mátti þola 29:23-tap fyrir Póllandi í fyrsta leik sínum á alþjóðlega Posten Cup-mótinu í dag, fjögurra liða móti sem fram fer í Hamri í Noregi.
Liðin skiptust á að skora fyrstu mörkin og var staðan 3:3 eftir sjö mínútur. Þá tók við fínn kafli hjá Póllandi, því staðan var 7:4 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður.
Íslenska liðið minnkaði muninn í 7:6, en þá tók við erfiður kafli. Sóknarleikur Íslands gekk illa og gerði liðið of mikið af mistökum. Pólska liðið nýtti sér það og komst í 13:7
Ísland lagaði stöðuna fyrir hálfleik, fyrst og fremst vegna góðra tilþrifa hjá Söndru Erlingsdóttur, og var staðan í hálfleik 14:10.
Sandra var besti leikmaður Íslands í fyrri hálfleiknum. Gerði hún þrjú mörk, náði í eitt víti og stýrði íslenska sóknarleiknum vel. Andrea Jacobsen skoraði einnig þrjú mörk, þar af tvö fyrstu mörkin.
Pólska liðið byrjaði seinni hálfleikinn betur og komst átta mörkum yfir í fyrsta skipti í stöðunni 20:12, 20 mínútum fyrir leikslok.
Íslenska liðið svaraði því ágætlega og Þórey Anna Ásgeirsdóttir minnkaði muninn í 24:19, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Ísland fékk gott færi til að minnka muninn í fjögur mörk, en það gekk ekki upp. Pólska liðið skoraði þess í stað næstu þrjú mörk og komst aftur átta mörkum yfir, 27:19.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Sandra Erlingsdóttir og Andrea Jacobsen voru markahæstar hjá íslenska liðinu með fjögur mörk hvor, en öll mörk Þóreyjar komu af vítalínunni. Thea Imani Sturludóttir kom næst með þrjú.
Íslenska liðið mætir Noregi í öðrum leik sínum á mótinu á laugardag klukkan 15:45. Þórir Hergeirsson þjálfar norska liðið. Angóla er síðan þriðji og síðasti andstæðingur Íslands á sunnudag klukkan 16:15.