Íslendingaliðið Melsungen fór í kvöld upp í toppsæti þýsku 1. deildarinnar í handbolta með 27:24-útisigri á Eisenach í 14. umferðinni.
Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson hefur leikið vel með Melsungen á leiktíðinni og hann skoraði fimm mörk. Arnar Freyr Arnarsson bætti við einu marki.
Melsungen er með 22 stig, einu stigi meira en Magdeburg og Füchse Berlin, en þau eiga bæði tvo leiki til góða.
Í B-deildinni mátti Minden þola 29:30-tap fyrir Grosswallstadt. Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði sex mörk fyrir Minden og Sveinn Jóhannsson fjögur. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar liðið, sem er í 15. sæti með níu stig.