Einar Bragi Aðalsteinsson átti stórleik fyrir FH-inga þegar þeir unnu Bocholt frá Belgíu með 9 marka mun í Evrópubikar karla í handknattleik í Kaplakrika í dag.
Spurður að því hvort belgíska liðið hefði komið honum á óvart í dag sagði Einar Bragi þetta:
"Við vissum að þeir myndu keyra hröðu miðjuna. Það kemur mér kannski á óvart hvað þeir gerðu lítið af því. Aðal atriðið var að einbeita okkur af sjálfum okkur og okkar leik og okkur tókst það."
Var þetta verkefni auðveldara en þú bjóst við?
"Nei alls ekki, er ekki talað um að andstæðingurinn spili bara jafn vel og þú leyfir honum? En nei ég ber gríðarlega virðingu fyrir þessu liði og þetta var ekki auðveldur leikur."
Þú skorar 11 mörk í dag. Eigum við von á sömu frammistöðu frá þér í leiknum úti í Belgíu?
"Ég vona það sjálfur. En fyrst og fremst vona ég bara að við vinnum sannfærandi. Næsti leikur er samt bara á móti KA og mig langar að standa mig vel í honum."
Þið lendið í vandræðum í sóknarleiknum í 10 mínútur í fyrri hálfleik og skorið ekki mark. Hvað gerðist þá?
"Ég veit það svo sem ekki. Broddurinn fór aðeins úr okkar leik og við hleyptum þeim í gang. Við þurftum bara að skrúfa hausinn aftur á og það tókst."
Er eitthvað sérstakegt sem FH þarf að laga fyrir seinni leikinn gegn Bocholt?
"Kannski bara helst að passa að það komi ekki aftur svona kafli eins og í fyrri hálfleik. En við þurfum bara að fara yfir þennan leik og greina hann og þá koma eflaust einhver atriði sem þarf að laga." sagði Einar Bragi í samtali við mbl.is.