ÍBV tapaði naumlega fyrir Krems, 30:28, þegar liðin mættust í kvöld í fyrri leik sínum í þriðju umferð Evrópubikars karla í handknattleik í Austurríki.
Eyjamenn voru yfir í hálfleik, 13:10, eftir að hafa náð mest fjögurra marka forystu í fyrri hálfleiknum, 11:7.
Krems jafnaði í byrjun síðari hálfleiks, komst fyrst yfir 16:15 en síðan var jafnt á flestum tölum. Krems komst í 28:24 þegar fjórar mínútur voru eftir en Eyjamenn minnkuðu það í 29:28 áður en heimamenn áttu lokamark leiksins.
Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði 7 mörk fyrir ÍBV, Gauti Gunnarsson 5, Breki Þór Óðinsson 4, Daniel Vieira 4, Elmar Erlingsson 3, Gabríel Robertsson 1, Arnór Viðarsson 1, Ívar Bessi Viðarsson 1, Sveinn José Rivera 1 og Kári Kristján Kristjánsson 1.
Seinni leikur liðanna fer fram í Vestmannaeyjum um næstu helgi.