Flottur seinni hálfleikur gegn Þóri og Noregi

Andrea Jacobsen skýtur að norska markinu í dag.
Andrea Jacobsen skýtur að norska markinu í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mátti þola tíu marka tap, 21:31, þegar liðið mætti heims- og Evrópumeisturum Noregs í öðrum leik sínum á alþjóðlega Posten Cup-mótinu í Hamri í Noregi í dag.

Norska liðið hefur verið í allra fremstu röð í heiminum síðustu áratugi og þær norsku sýndu hvers vegna í fyrri hálfleik í dag. Ótrúlega góðir leikmenn Noregs léku listir sínar, gegn íslensku liði sem reyndi hvað það gat gegn óviðráðanlegum andstæðingi.

Hvað eftir annað galopnaði norska liðið íslensku vörnina í fyrri hálfleik og þess á milli varði Silje Solberg glæsilega í markinu og norska liðið fékk auðveld mörk úr hraðaupphlaupum. Raðaði norska liðið því inn mörkunum og stóð góða vörn hinum megin.

Thea Imani Sturludóttir í leiknum í dag.
Thea Imani Sturludóttir í leiknum í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Það var þó eitthvað jákvætt hjá íslenska liðinu. Elín Rósa Magnúsdóttir átti flottan fyrri hálfleik hjá Íslandi, lagði upp tvö glæsileg mörk og náði í víti. Andrea Jacobsen var áræðin í  upphafi leiks og Sandra Erlingsdóttir átti sína spretti.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir náði sér hins vegar ekki á strik í markinu, enda norska liðið oftar en ekki í opnum dauðafærum. Munaði tólf mörkum í hálfleik, 20:8.

Sandra Erlingsdóttir í leiknum í dag.
Sandra Erlingsdóttir í leiknum í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Norska liðið gat leyft sér að slaka vel á í seinni hálfleik og íslenska liðið nýtti sér það. Hafdís Renötudóttir byrjaði að verja vel, Ísland byrjaði að fá mörk frá Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur úr hægra horninu og hvað eftir annað skoraði Ísland góð mörk úr gegnumbrotum og vítum.

Þórir á hliðarlínunni í dag.
Þórir á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Tókst Íslandi að vinna seinni hálfleikinn með tveimur mörkum, sem er gott afrek út af fyrir sig, en forskoti norska liðsins var eðlilega ekki ógnað.

Það var því margt jákvætt hjá íslenska liðinu í dag, gegn einu allra besta liði heims. Næsti leikur er gegn Angóla á morgun og er það síðasti leikurinn fyrir lokamót HM, sem hefst eftir helgi.

Noregur 31:21 Ísland opna loka
60. mín. Lilja Ágústsdóttir (Ísland) á skot í stöng Úr vinstra horni. Óheppin þarna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert