Valur vann spennandi leik gegn úkraínska liðinu MC Motors í 3. umferð Evrópubikar karla í handbolta sem fram fór í Slóvakíu í dag.
Valsarar byrjuðu leikinn vel og komst í stöðuna 2:0 en leikmenn Motors voru sterkir í fyrri hálfleik. Staðan var 4:4 eftir tíu mínútur en eftir það byrjuðu Valsarar að elta, þeir voru mest fjórum mörkum undir en náðu að minnka muninn í aðeins eitt mark þegar flautað var til hálfleiks, 17:16.
Valsarar jöfnuðu í upphafi seinni hálfleiks og komust yfir á 35. mínútu og komust á gott skrið. Á 42. mínútu var Valur fjórum mörkum yfir og þeir héldu góðri forystu á Motors út leikinn.
Lokatölur 35:31 sigur en Benedikt Gunnar Óskarsson átti flottan leik og skoraði 11 mörk úr 17 skotum. Næst markahæstur var Viktor Sigurðsson en hann skoraði sex mörk úr níu skotum.
Ísak Gústafsson skoraði fimm, Úlfar Páll Monsi Þórðarson fjögur úr fjórum skotum, Robert Hostert skoraði þrjú, Tjörvi Týr Gíslason og Andri Finnsson skoruðu tvö, Agnar Jónsson og Allan Nordberg skoruðu eitt hvor.
Seinni leikur liðanna verður á Hlíðarenda næstu helgi.