Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mátti þola 27:24-tap gegn Angóla í lokaleik liðanna á alþjóðlega mótinu Posten Cup í Lillehammer í Noregi í dag. Liðin mætast í lokaleik D-riðils á lokamóti HM, í leik sem gæti orðið úrslitaleikur um sæti í milliriðlum 4. desember.
Angóla fór aðeins betur af stað, en íslenska liðið var ekki langt undan. Var staðan 7:4 eftir tólf mínútur og réð íslenska vörnin illa við línukonuna stóru og stæðilegu Albertinu Kassoma, sem skoraði fimm mörk í hálfleiknum.
Hafdís Renötudóttir lék vel í markinu og átti stóran þátt í að Angóla náði ekki að bæta í forskotið, sem varð mest fjögur mörk í fyrri hálfleik.
Hinum megin var sóknarleikurinn frekar lengi í gang, en batnaði eftir því sem leið á hálfleikinn. Með góðum lokasóknum tókst Íslandi að skora þrjú mörk undir lok hálfleiksins og minnka muninn í tvö mörk. Var staðan í hálfleik 13:11.
Þórey Rósa Stefánsdóttir átti sinn besta hálfleik til þessa á mótinu og skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik. Perla Ruth Albertsdóttir skoraði tvö í hinu horninu og kærkomin mörk úr horninu að líta dagsins ljós. Sandra Erlingsdóttir skoraði fjögur, þar af þrjú úr vítum og skapaði mikið fyrir liðsfélaga sína. Hafdís varði sjö skot í markinu, þar af eitt víti.
Íslenska liðið var fljótt að minnka muninn í eitt mark í seinni hálfleik og Þórey Anna Ásgeirsdóttir fékk gott færi til að jafna í 13:13 snemma í hálfleiknum en skaut í stöng.
Næstu mínútur reyndust íslenska liðinu þess í stað erfiðar, því Angóla komst í 17:13. Skömmu síðar komst Angóla fimm mörkum yfir í fyrsta skipti, 21:16. Íslenska liðið lagaði stöðuna aðeins í lokin, en ógnaði ekki forskotinu að ráði.
Þórey Anna kom mjög sterk inn í liðið í seinni hálfleik og var markahæst með fimm mörk, þar af eitt úr víti. Sandra Erlingsdóttir skoraði fjögur, þrjú úr vítum.
Á eftir þeim voru Þórey Rósa Stefánsdóttir og Thea Imani Sturludóttir með þrjú mörk hvor. Alls komust ellefu íslenskir leikmenn á blað í dag.
Næst á dagskrá hjá íslenska liðinu er fyrsti leikur á lokamóti HM, gegn Slóveníu 30. nóvember.