Íslendingaliðið komið á toppinn

Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason eru komnir á …
Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason eru komnir á toppinn með Magdeburg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Magdeburg komst í dag í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik eftir torsóttan útisigur gegn botnliði Balingen en sex mörk skildu þó liðin að í lokin. 34:28.

Magdeburg var aðeins einu marki yfir, 25:24, þegar langt var liðið á leikinn en tókst loks að hrista Balingen af sér.

Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg og Janus Daði Smárason þrjú en Janus átti að auki fimm stoðsendingar. Oddur Gretarsson skoraði þrjú mörk fyrir Balingen og Daníel Ingason eitt.

Magdeburg er með 23 stig á toppnum, eins og Füchse Berlín, en Melsungen er í þriðja sæti með 22 stig og Flensburg er með 20 stig í fjórða sætinu.

Rhein-Neckar Löwen vann Wetzlar, 26:21, og er í sjötta sæti með 15 stig. Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk fyrir Löwen en Arnór Óskarsson ekkert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert