Afturelding er úr leik í Evrópubikar karla í handknattleik eftir ósigur í seinni leiknum gegn Tatran Presov í Slóvakíu í dag, 28:25.
Tatran vann fyrri leikinn, einnig á sínum heimavelli, á föstudagskvöldið, 27:24. Möguleikarnir voru því enn fyrir hendi hjá Mosfellingum enda þriggja marka munur ekki mikið í handboltaleik.
Tatran var með undirtökin mest allan fyrri hálfleik, aldrei þó með meira en þriggja marka forystu. Afturelding jafnaði metin í 8:8 og náði svo forystunni undir lok hálfleiksins, 14:13, og það var staðan þegar flautað var til leikhlés.
Slóvakarnir skoruðu fyrstu þrjú mörk síðari hálfleiks, 16:14. Afturelding jafnaði í 17:17 en þá skoruðu heimamenn sex mörk gegn einu, og voru komnir í 23:18 um hálfleikinn miðjan. Ekki bætti úr skák að landsliðsmaðurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson fékk að líta rauða spjaldið um sama leyti.
Þar með voru úrslitin ráðin, Afturelding þurfti minnst þriggja marka sigur til að geta farið áfram og lið Tatran sigldi sigrinum heim af öryggi á lokakafla leiksins. Sex mörk skildu því liðin að samanlagt.
Mörk Aftureldingar: Birkir Benediktsson 6, Blær Hinriksson 5, Árni Bragi Eyjólfsson 4, Þorsteinn Leó Gunnarsson 4, Ihor Kopyshynskyi 3, Jakob Aronsson 1, Þorvaldur Tryggvason 1, Leó Snær Pétursson 1.