Handboltamenn hituðu upp með vettlinga og húfur

Carlos Ortega.
Carlos Ortega. AFP/Roberto Pfeil

Carlos Ortega, þjálfari karlaliðs Barcelona í handknattleik, var allt annað en sáttur eftir leik sinna manna gegn León í spænsku 1. deildinni um helgina.

Leiknum lauk með öruggum sigri Barcelona, 39:25, en Ortega var afar ósáttur með aðstæðurnar sem boðið var upp á í íþróttahúsi León.

Framkvæmdir eiga sér nú stað í íþróttahúsi León en leikmenn Barcelona þurftu meðal annars að hita upp með vettlinga og húfur.

Gengur ekki að vetri til

„Vonandi þurfum við aldrei að spila við svona aðstæður aftur og þetta er íþróttinni ekki til framdráttar,“ sagði Ortega.

„Við þurftum að hita upp með vettlinga og húfur enda var ekki nema 3° hiti í höllinni. Hún var líka drulluskítug og beinlínis hættuleg leikmönnunum þar sem það var mikið ryk á gólfinu.

Það er eitt að spila svona leik yfir sumartímann en þetta gengur ekki að vetri til,“ bætti Ortega við á blaðamannafundi í leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert