Íslendingaliðin áfram í milliriðla

Tryggvi Þórisson skoraði eitt mark í kvöld.
Tryggvi Þórisson skoraði eitt mark í kvöld. Ljósmynd/Jozo Cabraja

Íslendingalið Sävehof frá Svíþjóð er komið áfram í milliriðla í Evrópudeildinni í handknattleik eftir stórsigur gegn Cuenca frá Spáni í C-riðli keppninnar í Svíþjóð í kvöld, 40:27.

Tryggvi Þórisson skoraði eitt mark fyrir Sävehof sem er með 10 stig í efsta sæti riðilsins en Gorenje og Pfadi Winterhur eru með 4 stig hvort í öðru og þriðja sætinu. Tvö efstu lið riðilsins fara áfram í milliriðla.

Þá gerði þýska liðið Hannover-Burgdorf jafntefli gegn Kriens frá Sviss í Þýskalandi, 30:30, í B-riðli keppninnar en Heiðmar Felixsson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem er með 9 stig í efsta sæti riðilsins og komið áfram í milliriðla.

Keppni í milliriðlum hefst 13. febrúar og stendur yfir til 5. mars. Efstu lið milliriðlanna fara beint áfram í 8-liða úrslit keppninnar en liðin sem enda í öðru og þriðja sæti fara í umspil um fjögur laus sæti í 8-liða úrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert