Sex landsliðsmenn áfram í Evrópudeildinni

Viktor Gísli Hallgrímsson og liðsfélagar hans í Nantes eru komnir …
Viktor Gísli Hallgrímsson og liðsfélagar hans í Nantes eru komnir áfram í milliriðla. Ljósmynd/Nantes

Viktor Gísli Hallgrímsson varði tíu skot í marki franska liðsins Nantes þegar liðið heimsótti Benfica í A-riðli Evrópudeildarinnar í handknattleik í Portúgal í kvöld.

Leiknum lauk með 38:34-sigri Nantes en Stiven Tobar Valencia skoraði eitt mark fyrir Benfica í leiknum.

Þá skoraði Arnór Snær Óskarsson tvö mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen þegar liðið hafði betur gegn sænska liðinu Kristianstad í Þýskalandi, 36:28, en Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Löwen.

Rhein-Neckar Löwen er með tíu stig í efsta sæti riðilsins en Nantes er í öðru sæti riðilsins með átta stig og eru bæði lið komin áfram í milliriðla en Benfica er úr leik.

Óvæntur sigur í Sviss

Óðinn Þór Ríkharðsson átti mjög góðan leik fyrir Kadetten og skoraði fimm mörk þegar liðið vann nokkuð óvæntan sigur gegn þýska liðinu Flensburg í Sviss, 25:24, í E-riðli keppninnar en Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað hjá Flensburg.

Flensburg er með átta stig í efsta sætinu, líkt og Kadetten, og eru bæði lið komin áfram.

Þá skoraði Orri Freyr Þorkelsson fimm mörk fyrir Sporting frá Portúgal þegar liðið hafði betur gegn Chrobry Glogów í Póllandi, 35:22, í H-riðlinum en Sporting er með sex stig í öðru sæti riðilsins, tveimur stigum meira en Tatabánya sem er í þriðja sætinu fyrir lokaumferðina.

Keppni í milliriðlum hefst í febrúar

Keppni í milliriðlum hefst 13. febrúar og stendur yfir til 5. mars. Efstu lið milliriðlanna fara beint áfram í 8-liða úrslit keppninnar en liðin sem enda í öðru og þriðja sæti fara í umspil um fjögur laus sæti í 8-liða úrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert