Sigursteinn Arndal, þjálfari karlaliðs FH í Olís-deildinni í handbolta, getur vel við unað með árangur FH það sem af er. Liðið verður í toppsætinu í deildinni þegar 11. umferðinni lýkur á morgun.
FH sótti tvö stig til Akureyrar í kvöld með því að leggja KA 34:27. FH var yfir allan leikinn en KA kom með gott áhlaup um hann miðjan og þá breyttist staðan úr 16:9 í 18:17. FH náði vopnum sínum á ný og sigldi fram úr og sigur þeirra var aldrei í hættu eftir það.
„Það er fullt eftir af þessu en það er gott að vera í efsta sætinu, nú þegar deildarkeppnin er hálfnuð“ sagði Sigursteinn í viðtali skömmu eftir leik. „Við erum bara ánægðir með ganginn og taktinn í þessu hjá okkur.“ FH hefur nú unnið átta af síðustu níu leikjum sínum en gert eitt jafntefli.
„Við þurfum bara að halda áfram og halda fókus og reyna að bæta okkar leik, eins og við höfum verið að gera í allan vetur.“
Það hefur verið áskorun að koma hingað. KA lagði Val í síðustu umferð á Hlíðarenda og hafði byr í seglin. Þegar litið er yfir þennan leik þá má segja að þið hafið verið í bílstjórasætinu nánast allan leikinn. Þið byggðuð upp gott forskot í fyrri hálfleik, sem hvarf nánast og KA var við það að ná ykkur. Þá gáfuð þið bara í og stunguð aftur af.
„Það er bæði gaman og erfitt að koma í KA-heimilið. KA-liðið getur komið með frábæra kafla og áhlaup og gera það vel. Þess vegna er ég ánægður að við náðum aftur tökum á leiknum og sigldum þessu sannfærandi heim. Við náðum bara tökum á okkar leik. Við héldum fast í okkar upplegg og áherslur þótt það kæmi smá mótbyr. Við héldum bara okkar striki og náðum aftur að byggja upp gott forskot.“
Hópurinn sem þú hefur er afar skemmtilegur. Einhverjir reynsluboltar og fullt af ungum leikmönnum sem virðast vera að springa út núna. Það hlýtur að vera afskaplega skemmtilegt að vinna með þennan hóp.
„Við erum búnir að vera spenntir frá því í sumar og fyrir okkur þá snýst þetta um að halda áfram að gera það sem við höfum verið að gera vel. Svo þarf að bæta sig viku fyrir viku. Þú nefnir það réttilega að við erum með marga unga og efnilega leikmenn. Þetta er góð blanda og þessir eldri þurfa að halda áfram að gefa af sér á meðan þeir yngri þurfa að halda áfram að bæta í.“
Það er lykilatriði að halda ungu leikmönnunum á jörðinni og passa upp á að þeir fari ekki fram úr sjálfum sér.
„Það þarf ekki að halda þeim sérstaklega á jörðinni en það er mikilvægt að þeir fari ekki fram úr sér. Þeir eru á þeim stað að þeir eru að stækka og við viljum að þeir séu að stækka. Við þurfum bara að stýra þessu í rétta átt“ sagði Sigursteinn Arndal að lokum