Ísland fær tvö sæti í Evrópudeildinni

Valsmenn komust í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar í fyrravetur og mættu …
Valsmenn komust í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar í fyrravetur og mættu þar Göppingen frá Þýskalandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland hefur rétt til að senda tvö lið í Evrópudeild karla í handknattleik á næsta keppnistímabili, 2024-25.

Þetta kemur fram í niðurröðun Handknattleikssambands Evrópu, EHF, fyrir Evrópumótin 2024-25 sem var birt í dag.

Ísland er komið í 16. sæti á styrkleikalista Evrópudeildarinnar, sem er byggður á úrslitum í Evrópumótunum 2020 til 2023. Ísland var í 24. sæti fyrir núverandi keppnistímabil.

Þýskaland og Portúgal eru í  tveimur efstu sætunum og mega senda fjögur lið hvor þjóð í Evrópudeildina. Frakkland, Spánn, Pólland, Króatía, Danmörk, Sviss og Svíþjóð mega senda þrjú lið hver þjóð og Rússland (sem er í banni), Norður-Makedónía, Ungverjaland, Slóvenía, Slóvakía, Austurríki, Ísland, Rúmenía og Úkraína eiga rétt á að senda  tvö lið hver þjóð.

Valsmenn eiga drjúgan þátt í þessu en þeir léku í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í fyrravetur og komust þá áfram í útsláttarkeppnina.

Ísland má auk þess senda áfram tvö lið í Evrópubikarinn. Á yfirstandandi tímabili völdu öll fjögur íslensku liðin að fara í Evrópubikarinn og þrjú þeirra, FH, Valur og ÍBV, standa öll vel að vígi með að komast þar í 16-liða úrslit. Ekkert íslenskt lið fór í Evrópudeildina 2023-24.

Þá hafa Norðmenn unnið sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar karla fyrir næsta tímabil og þeirra meistaralið þarf ekki að fara í umspil um að komast þangað. Norðmenn taka sæti Norður-Makedóníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert