KA og FH mættust í elleftu umferðinni í Olís-deild karla í kvöld en umferðinni lýkur á morgun með fjórum leikjum. FH var í toppsæti deildarinnar fyrir leik og yrði það áfram hvernig sem færi. KA gat hoppað upp um tvö sæti með sigri en liðið sat í 7. sætinu fyrir leik.
Topplið FH var með leikinn í höndum sér nær allan tímann en góður kafli KA undir lok fyrri hálfleiks gaf heimamönnum von, sem slokknaði full snemma í seinni hálfleiknum. FH vann að lokum nokkuð sannfærandi sigur, 34:27.
Fyrri háfleikurinn var eign FH-inga nánast frá upphafi til enda. Vörn Hafnfirðinga var þétt og KA-menn áttu í miklu basli með að koma sér í færi. Að auki misstu heimamenn boltann ansi oft og tóku sjö skot í marksúlurnar, bara í fyrri hálfleiknum. FH náði að keyra hraðar sóknir þar sem Birgir Már Birgisson var opinn í hægra horninu hvað eftir annað. Sá drengur raðaði svoleiðis inn mörkunum og var kominn með sjö mörk eftir 23 mínútur. KA hafði tekið annað leikhlé sitt skömmu áður í stöðunni 13:7 fyrir FH. Þegar fimm mínútur lifðu af fyrri hálfleik var staðan 16:9 fyrir FH og KA-menn hreinlega í djúpum skít. Góður kafli KA og einhver værð hjá FH kom heimamönnum aftur inn í leikinn en KA skoraði fimm síðustu mörk hálfleiksins. Staðan var því orðin 16:14 þegar flautað var til hálfleiks.
Strax í upphafi seinni hálfleiks minnkaði KA muninn í eitt mark en lengra komust þeir ekki. Munurinn varð fljótt sex mörk og segja má að FH-ingar hafi bara vippað sér á bak fáki sínum og riðið inn í sólarlagið með þægilegan sigur í farteskinu. FH-ingar þéttu vörn sína verulega og Daníel Freyr Andrésson hrökk í gang í markinu. KA-menn reyndu að fjölga í sókninni en það gerði engan gæfumun. Munurinn jókst bara og varð mestur átta mörk. Í lokin skildu sjö mörk og FH vann góðan 34:27-sigur.
Bestu menn leiksins voru þeir Einar Bragi Aðalsteinsson í FH og nafni hans Einar Rafn Eiðsson í KA. Einar Bragi var hreinlega frábær allan leikinn en Birgir Már tók dálítið af honum sviðsljósið í fyrri hálfleik. Daníel Freyr varði nokkuð vel í seinni hálfleiknum og svo voru bæði Simon Michael Guðjónsson og Jón Bjarni Ólafsson ansi öflugir.
KA hefði þurft fleiri ræðara til að leggjast á árarnar með Einari Rafni. Markvörðurinn Nicholai Horntvedt Kristensen tók fínan sprett um miðbik leiksins og varði þá vel en svo var það búið. KA-menn áttu alls ekki afleitan leik en þeir voru að spila gegn toppliðinu og máttu ekki gera svona mörg mistök og hefðu þurft að nýta skotin sín betur.
FH hefur nú þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar og verður í toppsætinu þegar 11. umferðinni lýkur á morgun og deildarkeppnin hálfnuð. KA verður áfram í 7. sætinu, sama hvernig leikirnir fjórir fara á morgun.