Pavel Miskevich átti sannkallaðan stórleik í marki ÍBV þegar liðið tók á móti HK í 11. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í kvöld.
Leiknum lauk með fjögurra marka sigri ÍBV, 32:28, en Miskevich varði alls 18 skot í markinu, þar af tvö vítaköst, og var með 38% markvörslu.
Jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútum leiksins en Gauti Gunnarsson kom Eyjamönnum fjórum mörkum yfir, 10:6, eftir fimmtán mínútna leik.
Sigurður Jefferson Guarino minnkaði muninn í eitt mark fyrir HK, 13:12, þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en Eyjamenn voru sterkari á lokamínútunum og leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, 16:14.
Eyjamenn byrjuðu síðari hálfleikinn betur og náði snemma fjögurra marka forskoti, 18:14. Jón Karl Einarsson minnkaði muninn í tvö mörk. 21:19, og liðin skiptust á að skora eftir það.
Þegar tíu mínútur voru til leiksloka varði Miskevich hvert skotið á fætur öðru, Eyjamenn náðu fimm marka forskoti, 30:25, og HK-ingum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil eftir það.
Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði 10 mörk fyrir ÍBV og Daniel Vieira fjögur. Kristján Ottó Hjálmsson var markahæstur hjá HK með fjögur mörk og Styrmir Máni Arnarsson skoraði fjögur.
ÍBV er með 15 stig í fjórða sæti deildarinnar, líkt og Afturelding sem er í þriðja sætinu, en HK er með 7 stig í áttunda sætinu.