Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, var ánægður með sigur sinna manna gegn HK er liðin mættust í Vestmannaeyjum í Olísdeild karla í handknattleik. Lokatölur 32:28 en ÍBV vann báða hálfleikina með 16 mörkum gegn 14.
„Við teljum okkur vera klassanum betra lið, það er þess vegna sem við vinnum. Við eigum að vinna svona leik, við gerðum það í dag og strákarnir sýndu ágætan leik. Við erum að klikka á mikið af dauðafærum sem getur verið hugarfar en það getur líka verið að það þurfi að æfa það betur, það má þá skrifa það á mig. Ég vil gefa strákunum kredit fyrir það hvernig þeir nálguðust verkefnið, bæði á æfingu í gær og í dag,“ sagði Magnús en hann segir það hafa gerst að liðið mæti ekki rétt stemmt í leiki.
„Það hefur loðað við okkur að taka á móti liði eins og HK, með fullri virðingu fyrir þeim, að við höfum látið taka okkur aðeins í bólinu. Það hefur gerst gegn Víkingi og Gróttu fyrr á tímabilinu, þess vegna var ég ánægður með strákana í dag. Það má ekki gleyma því að HK-liðið er nákvæmlega þannig lið að ef þú slakar einu sinni á, þá eru þeir búnir að refsa þér. Þetta er vel drillað lið og greinilega vel rútinerað, það koma inn nýir leikmenn af bekknum endalaust og það er haldið sama tempói út allan leikinn hjá þeim, sama hver er inná. Þetta er virkilega efnilegt lið og það verður gaman að fylgjast með þeim.“
HK-ingar voru nokkrum sinnum nálægt því að jafna metin og voru sjálfum sér verstir í þau skipti.
„Þeir eru með drengi sem spila fantagóða vörn, þeir voru okkur erfiðir mjög oft á tíðum. Hann var að verja fínt þarna fyrir aftan, HK er ekkert lengur, unga liðið eða nýliðarnir í deildinni. Nú eru þetta strákar sem eru búnir að gefa þessu séns og gefa þessu konsepti hjá Basta séns, þetta mun skila sér enn betur ef þeir halda áfram að vera þolinmóðir.“
Eyjamenn hafa deilt hálfleikjunum á markverðina en í dag spilaði Pavel Miskevich allan leikinn, hvers vegna?
„Roland fannst hann vera í góðu zone-i og góðri tengingu við leikinn, þá var engin ástæða til að skipta. Þeir eru algjörlega með þetta þeir þrír, Roland, Petar og Pavel. Það er fullkominn skilningur á því, Petar samgleðst þegar Pavel gengur vel og öfugt, þeir eru gott teymi.“
HK spilaði nokkuð óhefðbundinn sóknarleik og komu Eyjamönnum í vandræði þó nokkrum sinnum.
„Við vorum að reyna að kortleggja þá, klippa einhver vídeó fyrir leiki og leikgreina og svona, þetta er liðið sem er erfiðast að leikgreina. Þeir eru ekki í þessum hefðbundnu kerfum eins og Cairo eða júgga, þess vegna eru þeir svona skemmtilegir viðureignar því það er ekkert hægt að forvinna allt of mikið á móti þeim.“
Kári Kristján Kristjánsson var ekki með í dag en Magnús segir hann ekki hafa verið hvíldan með Evrópuleikinn í huga.
„Hann meiddist bara í fyrri hálfleik á móti Krems og verður tæpur alveg fram að leik, það er spurningamerki hvort hann verði með eða ekki. Við hvíldum engan í dag og bárum mikla virðingu fyrir þessum tveimur stigum sem við ætluðum okkur í dag.“
Hræðilegur seinni hálfleikur í Austurríki kom í veg fyrir að ÍBV fór með sigur í farteskinu til Íslands um helgina þar sem Krems vann 30:28 sigur í fyrri leik liðanna í Evrópubikarnum. Hvernig lítur Magnús á möguleika liðsins í seinni leiknum?
„Mér finnst möguleikar okkar vera góðir, við erum með góð svör varnarlega, við þurfum aðeins að renna yfir sóknarleikinn á móti þeim, hann varð einhæfur í seinni hálfleik, það skrifast á mig. Það vantaði smá hugmyndaflug í mig á bekkinn en við teljum okkur hafa spottað þetta og skoðað þá. Þetta verður hörkuleikur á laugardaginn, vonandi með kjaftfullu húsi og flottri stemningu um daginn.“
Magnús hefur verið leikmaður og aðstoðarþjálfari í Evrópuleikjum ÍBV en það er ekki oft sem ÍBV spilar heima og að heiman og frábært fyrir félagið að fá seinni leikinn á heimavelli og geta þá myndað svona stemningu eins og virðist vera planið.
„Við höfum getað sloppið vel fjárhagslega við að selja heimaleikina okkar út til andstæðinganna okkar en það var klárt að við ætluðum ekki að gera það í þetta skiptið. Við vildum gefa fólkinu heimaleik gegn einhverju öðru en þessum klassísku íslensku liðum, þess vegna vonumst við til að sjá sem flesta og að sem flestir geti gefið sér einn eða einn og hálfan klukkutíma fyrir leik, þegið veitingar og tekið þátt í gleðinni með okkur. Við höfum gert þetta einhvern tímann áður, með hrikalega flott fólk í kringum okkur sem gerir okkur kleift að búa til svona stemningu.“