Halldór Stefán Haraldsson hefur stýrt Olís-deildarliði KA í handbolta karla í vetur. KA fékk topplið FH í heimsókn í kvöld. FH var með yfirhöndina lungann úr leiknum og vann góðan sigur 34:27. Halldór Stefán kom í stutt spjall eftir leik og var bara brattur þrátt fyrir skellinn.
Þetta var brekka upp í móti hjá ykkur í dag.
„Við byrjuðum leikinn frekar illa og vorum ekki að spila eins og við getum best. Við fengum alveg færin en það voru allt of mörg skot í stangirnar og svo einhverjir sóknarfeilar. Mér fannst við ná að snúa heppninni okkur í hag í lokin á fyrri hálfleik og þá minnkuðum við muninn í tvö mörk. Við fórum því inn í seinni hálfleikinn með alla möguleika“
Þið náðuð muninum niður í eitt mark en þá komu nokkrar lélegar sóknir og tapaðir boltar sem gerðu þetta afar erfitt. Það hlýtur að vera sálrænt erfitt að vera við það að krafla sig upp úr holunni en detta svo ofan í hana aftur og þurfa byrja upp á nýtt.
„Jú auðvitað. Maður getur horft á þetta á ýmsa lund. Við sýnum það á köflum að við eigum í fullu té við þessu lið en við þurfum betri frammistöðu í lengri tíma. Tæknifeilarnir voru okkur dýrir í dag.“
Nú er deildarkeppnin hálfnuð og KA er í 7. sætinu með 10 stig. Hvernig finnst þér holningin á mannskapnum og staðan, svona almennt. Sérðu fyrir þér að liðið bæti sig og nái meiri stöðugleika?
„Ekki spurning. Við værum til í að vera með fleiri stig en þurfum að ná betri frammistöðu lengur og oftar. Það er markmiðið hjá okkur og við ætlum að taka fleiri stig í seinni umferðinni. Mér finnst þetta líta vel út akkúrat núna. Við þurfum bara að halda okkur á tánum og vinna í okkur áfram.“
Þú ert með marga barnunga leikmenn.
„Já það er mikið á þeirra herðar lagt. Við getum ekkert ætlast til þess að þeir spili frábærlega í hverjum einasta leik. Við stefnum bara á að þessir strákar þrói sinn leik í rétta átt og eldri mennirnir í liðinu hjálpa þar mikið. Þetta eru mjög spennandi strákar en þeir þurfa bara að halda áfram að vinna vel og vera tilbúnir í það að verða góðir. Það kemst enginn þangað frítt“ sagði Halldór Stefán að lokum.