Úrslitin ekki í samræmi við frammistöðuna

Sebastian Alexandersson á hliðarlínunni í kvöld.
Sebastian Alexandersson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sebastian Alexandersson, þjálfari HK-inga, var til viðtals eftir tap hans manna gegn ÍBV í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld en lokatölur 32:28 á heimavelli Eyjamanna.

„Í áherslumun í dómgæslu,“ sagði Sebastian þegar hann var spurður að því hvar hans lið hafi tapað leiknum. Hann sagði þetta hafa skipt miklu máli.

„Við erum með átta brottvísanir á móti engri, ég er ekki að mótmæla því að okkar brottvísanir hafi verið rangar, sumar. Það áttu að vera brottvísanir hinu megin líka, þeir eru líka mikið inni í teig að verjast, við fengum reyndar þrjú víti en klikkuðum á tveimur, það er samt ekki málið. Maður er fúll því við áttum fullt í ÍBV í dag, erum með mikið laskað lið og þeir með hugann við Evrópukeppnina. Mér fannst við eiga að vinna þá en það var ekki hægt,“ sagði Sebastian en það hallaði þó nokkuð á HK-inga í dómgæslunni og þá sérstaklega þegar kom að brottvísunum þar sem Eyjamenn fengu enga en HK-ingar sjö.

Það er ekki algengt að svo mikill munur sé á tveggja mínútna brottvísunum á liðunum en það litaði aðeins leikinn þar sem HK-ingar fengu enga yfirtölu og það tekur á að þurfa að spila manni færri svo stóran hluta leiksins.

„Ég er ekki dómari en það væri kannski ágætt ef það væru viðtöl tekin við dómarana, þeir eru örugglega með skýringar á þessu og ég hef örugglega rangt fyrir mér eins og alltaf. 18 mínútur manni færri,“ sagði Sebastian en það er ljóst að tölfræðin hefur aðeins klikkað hjá blaðamanni í lýsingunni eða hjá Sebastian.

„Markvörðurinn var líka góður hjá ÍBV, hann varði mikið af færum og á mikilvægum augnablikum en mér fannst við vera með þá. Þeir eru bara betra lið. Ég vil hrósa okkar liði, menn gáfu allt í þetta og stóðu sig vel, okkar vegferð heldur áfram.“

HK-ingar unnu góða sigra á Víkingi og Stjörnunni í síðustu tveimur leikjum, ágætis kafli hjá þeim þar sem þeir lyftu sér úr botnsætinu.

„Við eigum þessa dagana að fara í alla leiki til að vinna, sama hverjum við mætum og mér fannst við fá góða frammistöðu í dag, úrslitin voru ekki í samræmi við það en við tökum það sem er gott út úr þessum leik.“

HK-ingar voru að spila mjög óhefðbundin kerfi gegn 5-1 vörn Eyjamanna og voru að njóta góðs af því í mörgum sóknum þar sem Sigurður Jefferson og Kristján Ottó Hjálmsson fengu góð færi af línunni, unnu HK-ingar mikið í þessu fyrir leik?

„Ég get nú ekki sagt það, maður mætir þessari vörn tvisvar á ári en eitt er alveg klárt, ef þú ætlar að spila venjulega sókn á móti þeim, þá erum við ekki að fara að ná neinum árangri, ef þú gerir eitthvað öðruvísi þá vita þeir ekki alveg hvernig þeir eiga að bregðast við því. Það var oft í dag þar sem við fengum upp frábærar stöður og akkúrat þær sem við vildum, menn voru ekki nógu klókir að velja rétt í þeim stöðum enda er ég með mikið af ungum leikmönnum.“

Það gerðist allavega í tvígang að HK-ingar voru á ágætis skriði og gátu minnkað í eitt mark eða jafnað metin en þá kom klikk úr dauðafæri og svo mark og tvær mínútur í bakið, þetta skiptir mjög miklu máli.

„Mér finnst það líka, ég þarf ekkert að diskótera þetta meira þar sem ég hef alltaf rangt fyrir mér þegar kemur að dómgæslu. Ég hef þá líklega rangt fyrir mér núna og þetta var allt rétt, við erum með frábært dómarapar núna en eins og ég upplifði leikinn þá fannst mér þetta ekki sanngjarnt.“

Sebastian horfir bjartur fram veginn.

„Ég er mjög jákvæður með margt, andinn í hópnum er frábær, við förum í alla leiki til að vinna og okkur er alveg sama hvað liðið heitir. Við erum að mæta hérna Íslandsmeisturunum á heimavelli, það vantar einn leikmann hjá þeim, vissulega mjög góðan, en það vantar sjö leikmenn hjá okkur og það er ekki meiri munur en þetta á liðunum. Ég get ekki verið annað en bjartsýnn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert