Ég reyndi að berja baráttu í strákana

Adam Haukur Baumruk sækir að Frömurum í kvöld.
Adam Haukur Baumruk sækir að Frömurum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka var að vonum svekktur með tap sinna manna gegn Fram í kvöld. Haukar leiddu fyrstu 10 mínútur leiksins og spiluðu góðan handbolta en svo skildu leiðir og Fram vann að lokum öruggan sigur. 

„Eftir 10 mínútur þá fórum við að láta verja frá okkur úr dauðafærum og við förum að taka mjög klaufalegar ákvarðanir í sókninni og við bara fundum ekki taktinn eftir það.“

Hvernig var hálfleiksræðan?

„Ég reyndi að berja baráttu í strákana og við fórum yfir nokkur atriði sem við ætluðum að laga í síðari hálfleik en það bara tókst ekki í kvöld.“

Í síðari hálfleik þá fara Haukar mjög framarlega á völlinn í 5-1 vörn. Þá kom ljós í varnarleik Hauka. Er þetta eitthvað sem hefði átt að gerast fyrr í leiknum?

„Við reyndum 5-1 líka í fyrri hálfleik og mér fannst við ekki alveg ná þeim stoppum sem ég vildi þá þannig að ég vildi reyna aðra vörn í síðari hálfleik áður en við fórum aftur í þessa 5-1 vörn.“

Næsti leikur er gegn HK. Finna Haukar viðspyrnu þar?

„Við getum ekkert spilað mikið verr en við gerðum hér í kvöld þannig að ég á ekki von á öðru en við spyrnum okkur frá botninum í næsta leik og við höfum núna rúma viku til að undirbúa okkur fyrir þann leik,“ sagði Ásgeir Örn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert