Ekki aftur snúið eftir að við komumst yfir

Marel Baldvinsson sækir að Haukum á Ásvöllum í kvöld.
Marel Baldvinsson sækir að Haukum á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Einar Jónsson þjálfari Fram var kampakátur með góðan útisigur á móti Haukum í kvöld. Með sigrinum er Fram í 5 sæti deildarinnar með 13 stig, þremur stigum meira en Haukar og KA.

„Þetta var óvænt, ég skal alveg viðurkenna það. Þetta voru ekki úrslit sem ég bjóst við fyrir þennan leik. Mér fannst við spila vel í 60 mínútur bæði varnar- og sóknarlega og ég er bara mjög ánægður með strákana í kvöld,“ sagði Einar spurður út í úrslitin í kvöld.

Ef við skoðum aðeins breytinguna á leiknum frá fyrstu 10 mínútunum og svo eftir það. Gerðir þú einhverjar breytingar á varnarleik þinna manna í ljósi þess að Haukar leiða fyrstu 10 mínúturnar og síðan skilja leiðir algjörlega?

„Nei við breyttum engu. Haukar eru með frábært lið og verða fyrir áfalli strax í upphafi en nei við breyttum svo sem engu. Kannski nokkrir áherslupunktar sem við löguðum og hættum að gera klaufamistök. Við litum vel út og ég var ekkert að panikka fyrstu 10 mínúturnar en það var ekki aftur snúið eftir að við komumst yfir.“

Hvað er skilur á milli liðanna í kvöld?

„Vörnin okkar var frábær og við náðum að þvinga þá í erfið skot. Sóknin okkar var frábær eins og hún hefur verið undanfarið. Við vorum alltaf að koma okkur í góðar stöður og Lalli var frábær í markinu.“

Er þetta það sem koma skal hjá Fram?

„Já að undanskildum síðustu tveimur leikjum gegn ÍBV þá erum við á góðri siglingu og erum að bæta okkur í hverjum leik.“

Næsti leikur er 8 desember á móti Gróttu. Erum við að fara sjá svona úrslit þar?

„Nei við erum ekki að fara vinna Gróttu með 10 mörkum og við munum bara undirbúa okkur undir hörku leik á móti frábæru liði Gróttu en með svona spilamennsku þá tel ég að við getum alveg unnið Gróttu,“ sagði Einar í samtali við mbl.is í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert