Janus Daði Smárason gerði sér lítið fyrir og skoraði átta mörk fyrir Magdeburg og var markahæstur þegar liðið vann fjögurra marka sigur gegn Montpellier, 28:24, í B-riðli Meistaradeildarinnar í handknattleik í Þýskalandi í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk fyrir Magdeburg sem er með 14 stig í þriðja sæti riðilsins, en Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Magdeburg vegna meiðsla.
Þá komst Bjarki Már Elísson ekki á blað hjá Veszprém þegar liðið tapaði naumlega fyrir Barcelona í Ungverjalandi, 31:30, en Veszprém er með 14 stig líkt og Magdeburg í öðru sæti riðilsins. Barcelona er á toppnum með 16 stig.
Þá var Haukur Þrastarson markahæstur hjá Kielce með sjö mörk þegar liðið vann öruggan tíu marka sigur gegn Pelister, 35:25, í A-riðli keppninnar en Kielce er með 12 stig í þriðja sæti riðilsins.