Fram kom sér í þægilega stöðu í fimmta sæti úrvalsdeildar karla í handbolta með sigri á Haukum 33:23 á Ásvöllum í kvöld en leikið var í 11 umferð deildarinnar.
Framarar eru í fimmta sæti deildarinnar með 13 stig en Haukar eru í 7 sæti með 10 stig líkt og KA sem er í 6 sæti.
Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Hauka því eftir aðeins 34 sekúndur þurfti að bera Geir Guðmundsson af velli og virtist sem hann hefði tognað mjög illa á kálfa.
Haukar skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins áður en að lið Fram komst á blað. Haukar leiddu síðan með tveimur mörkum fyrstu mínútur leiksins og spiluðu fínan handbolta, bæði í vörn og sókn. Þegar 11 mínútur voru liðnar af leiknum tókst Fram að jafna í stöðunni 5:5 og komast yfir 6:5. Þá skildu leiðir og leikur Hauka gjörsamlega hrundi á öllum sviðum leiksins.
Haukarnir byrjuðu að gera mjög klaufaleg mistök í sóknarleiknum sem gerði þeim erfitt fyrir að brjótast í gegnum vörn Fram. Þegar það tókst mátti halda að þeir litu frekar á Lárus Helga Ólafsson sem skotskífu en markvörð því leikmenn Hauka bókstaflega skutu í hann. Þetta notfærði Fram sér mjög vel og léku á sama tíma á alls oddi og skoruðu mörk í öllum regnbogans litum. Fram náði fljótlega 4 marka forskoti sem þeir juku síðan hægt og rólega í 9 mörk og stóðu leikar í hálfleik 20:11 fyrir Fram.
Markahæstir í liði Hauka í fyrri hálfleik voru þeir Adam Haukur Baumruk, Guðmundur Hólmar Helgason, Guðmundur Bragi Ástþórsson og Þráinn Orri Jónsson með tvö mörk hver. Magnús Gunnar Karlsson og Aron Rafn Eðvarðsson vörðu 4 mörk hvor í fyrri hálfleik.
Í liði Fram var Reynir Þór Stefánsson atkvæðamestur í fyrri hálfleik með 5 mörk og Lárus Helgi Ólafsson varði 9 skot.
Síðari hálfleikur var alveg eins og sá fyrri endaði. Fram jók muninn og komst mest 12 mörkum yfir í leiknum. Mest allan síðari hálfleikinn var munurinn 11 mörk og Haukar áttu aldrei möguleika í þessum leik. Sóknarleikur liðsins var mölbrotinn og ekkert gekk upp.
Næsti leikur Hauka í deildinni er á móti HK 8 desember á Ásvöllum en Fram eiga leik gegn Gróttu sama dag.
Markahæstur í liði Hauka var Guðmundur Bragi með 6 mörk og Magnús Gunnar Karlsson varði 12 skot, þar af eitt vítaskot.
Í liði Fram var Reynir Þór Stefánsson með 8 mörk og varði Lárus Helgi 16 skot.